Ætlar að slá í gegn í nýjum aldursflokki

Kristinn, til hægri, og Sigurður Pétur á Íslandsmótinu í fyrra.
Kristinn, til hægri, og Sigurður Pétur á Íslandsmótinu í fyrra.

Árbæingurinn Kristinn Guðmundsson er 65 ára frá því í desember. Hann lék knattspyrnu fram á miðjan finmmtugsaldur, þar af um 400 leiki í meistaraflokki 1977-2005, þjálfaði yngri flokka og var lengi spilandi þjálfari, hefur verið knattspyrnudómari frá 2009, byrjaði að æfa langhlaup fyrir nokkrum árum.

Hlaupaæfingar með áherslu á styttri vegalengdir urðu markvissar fyrir tæplega tveimur árum og hann er skráður í keppni í 800, 1.500 og 3.000 metra hlaupi í flokki 64-69 ára á Norðurlandamóti öldunga í frjálsíþróttum, sem fer fram skammt frá Ósló í Noregi um miðjan febrúar. „Þetta er auðvitað bilun en ég er keppnismaður og vil helst sigra.“

Kristinn byrjaði að æfa langhlaup 2017. „Bergþór Ólafsson félagi minn, sem var þjálfari í Árbæjarskokki, plataði mig á hlaupaæfingu og eftir það varð ekki aftur snúið,“ segir hann. Árið eftir hafi hann farið á fullt í langhlaupunum með áherslu á 5 og 10 km hlaup og tekið þátt í mörgum keppnishlaupum hérlendis síðan. „Ég hef sigrað þrisvar í mínum aldursflokki í 10 kílómetra hlaupi í Reykjavíkurmaraþoninu og varð í öðru sæti í fyrra, en nú er ég kominn í aldursflokk 65-69 ára og þar ætla ég að slá í gegn.“

Stefnir á met

Eftir að hafa byrjað að æfa spretthlaup inni segist Kristinn hafa fundið fjölina. Hann hafi fyrst tekið þátt í alþjóðlegri hlaupakeppni veturinn 2023. Þá hafi hann sigrað í 3.000 m hlaupi og fengið silfurverðlaun í 1.500 m hlaupi í flokki 60-64 ára á Norðurlandamóti öldunga í Reykjavík. „Ég er bestur í 3.000 metrunum á meðal þeirra sem eru 65 ára og eldri hérna heima og ætla að slá metið þar.“

Vorið 2023 byrjaði Kristinn að æfa í hlaupahópi hjá Sigurði Pétri Sigmundssyni í FH og segir það hafa skipt sköpum. „Ég æfi með elítunni í Hafnarfirði, reyni að hanga í ungu krökkunum og mér er sagt að ég sé nokkuð góður miðað við aldur. Hef reyndar aldrei verið í eins góðu formi og nú.“

Kristinn byrjaði snemma að æfa fótbolta hjá Fylki og þegar félagarnir hlupu stífluhringinn var hann ávallt fyrstur. „Það átti enginn æfingafélaganna neitt í mig, en ég byrjaði allt of seint að æfa hlaup.“ Hann spilaði með ýmsum félögum, þar á meðal í Svíþjóð, byrjaði 15 ára að þjálfa yngri flokka og hætti því 2011. „Ég hætti að spila fótbolta þegar ég var á 46. ári og þá var of seint að komast í hóp þeirra bestu í hlaupum.“

Kristinn er málari að mennt og starfar sem slíkur. Fótbolti og hlaup hafa verið helstu áhugamálin að ónefndu fluginu. Hann byrjaði í flugnámi 1991 en varð frá að hverfa vegna fjárskorts. Tók síðan einkaflugmannspróf 2009 og keypti sér Cessna 152-flugvél 2017. „Ég flýg þegar veðrið er gott og nýt þess í botn, er ofvirkur en slaka á í loftinu. Hlaupin og flugið eru mitt líf og yndi.

Ég er algjör bindindismaður, lifi góðu og heilbrigðu lífi með sjálfstraustið í lagi og segi gjarnan að ég sé málarasveinn og heimsmeistari. Með öðrum orðum reyni ég að standa mig sem best í öllu sem ég geri.“

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert