Fann fjölda dauðra gæsa: „Mjög óhugnanlegt“

Gunnar Þór Hallgrímsson, prófessor í dýrafræði, fann 19 dauðar grágæsir í Vatnsmýri í Reykjavík í dag. Allar líkur eru á því að fuglaflensa hafi dregið gæsirnar til dauða.

Hann segir aðkomuna mjög óhugnanlega.

„Við vorum þarna í þeim erindagjörðum að leita uppi dauðar gæsir og höfum fengið fregnir af því undanfarna daga að óvenju margir fuglar væru dauðir þarna. Í stuttu máli þá var staðan miklu verri en maður gat ímyndað sér,“ segir Gunnar.

„Mjög óhugnanlegt að sjá á tiltölulega litlu svæði 19 dauðar gæsir og einnig margar veikar sem tórðu þó enn.“

19 dauðar gæsir fundust dauðar úr fuglaflensu í Vatnsmýri í …
19 dauðar gæsir fundust dauðar úr fuglaflensu í Vatnsmýri í dag. Eins eru margar veikar og illa haldnar. Ljósmynd/Gunnar Þór Hallgrímsson

Faraldur í fyrsta skipti í borginni 

Fyrstu fuglaflensutilfellin komu upp hér á landi árið 2021 og nokkuð var um smit árið 2022 en svo virðist sem um alvarlegan faraldur sé að ræða nú að sögn Gunnars.

„Við erum í fyrsta skipti að fá greinilegan faraldur inni í borginni. Við höfum áður fundið fugla inni í borginni en ekki svo marga áður. Það er alltaf ömurlegt að sjá fuglinn deyja úr veikindum,“ segir Gunnar. 

Hann segir smit geta farið á milli fuglategunda en af einhverjum ástæðum er meira um að gæsir smitist nú. 

„Veiran er alltaf aðeins að stökkbreytast og svo er það líka að gerast að erfðaefni veirunnar er alltaf að breytast þar sem ólík erfðaefni fuglaflensu eru að koma saman. Það kann að hafa áhrif á það hvernig þetta leggst á ólíkar tegundir fugla,“ segir Gunnar.

Dauð gæs í Vatnsmýri í dag.
Dauð gæs í Vatnsmýri í dag. Ljósmynd/Gunnar Þór Hallgrímsson
Þrír fuglanna báru áverka sem gefur til kynna að hræfuglar …
Þrír fuglanna báru áverka sem gefur til kynna að hræfuglar hafi komist í smitaða fuglana. Ljósmynd/Gunnar Þór Hallgrímsson

Smeykur um að smitast 

Gunnar skoðaði fuglana í dag ásamt syni sínum. 

Ertu ekkert smeykur um að smitast? 

„Jú, við erum það, en það er þannig að maður er alltaf í hönskum og við gætum fyllstu varúðar. Hann snertir ekki fuglana heldur lætur mig fá poka og heldur sig fjarri. Svo set ég fuglinn í tvo poka og spritta áður en ég set merkimiða ofan í. Þetta er farið að finnast í spendýrum í meiri mæli en áður og maður á ekki að vera að kássast ofan í fuglunum, en ég geri það því ég hef reynslu í þessari meðhöndlun.“ 

Að sögn Gunnars mátti sjá á þremur af fuglunum að þeir bæru áverka eftir máva eða hrafna. 

„Það er einmitt hættan. Að þetta smitist áfram með þeim hætti.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert