Íbúar argir: Bærinn vill gistihús á flóðasvæði

„Þetta verður bara svipað og skrímslið í Breiðholti,“ segir áhyggjufullur …
„Þetta verður bara svipað og skrímslið í Breiðholti,“ segir áhyggjufullur íbúi í Garði. mbl.is/Sigurður Bogi Sævarsson

Íbúar í Garði í Suðurnesjabæ lýsa óánægju sinni með fyrirhugaðar breytingar á deiliskipulagi við Gauksstaðajörð, þar sem gert er ráð fyrir fimmtán ferðaþjónustuhúsum.

Svæðið er þekkt flóðasvæði og Veðurstofan varar við því að flóðhætta muni aukast þar samhliða hækkandi sjávarstöðu við Reykjanesskaga vegna loftslagsbreytinga og landsigs.

Bæjarstjórn Suðurnesjabæjar samþykkti á fundi sínum í byrjun október að auglýsa deiliskipulagstillögu á jörð Gauksstaða fyrir ferðaþjónustu.

Gistirými fyrir allt að 50 manns

Fyrirhugað er að útbúa gistirými fyrir allt að 50 manns í 15 ferðaþjónustuhúsum auk þjónustubyggingar. Gert er ráð fyrir að aðalinnkoma sé frá Gauksstaðavegi og að öryggisleið verði tryggð um sjóvarnargarð á suðurhlið svæðisins.

Íbúar í Garði eru margir ósáttir. Fleiri en 40 umsagnir bárust í Skipulagsgátt vegna tillögunnar og lýsa þeir m.a. áhyggjum af aukinni umferð á svæðinu, þar sem gert er ráð fyrir 48 bílastæðum.

Íbúarnir segja að aukin umferð geti valdið ónæði og dregið úr öryggi nálægt skólasvæði. Þá muni framkvæmdin einnig skerða útsýni íbúa að sjónum.

Í tillögunni er gert ráð fyrir 48 bílastæðum.
Í tillögunni er gert ráð fyrir 48 bílastæðum. Teikning/Glóra

„Verður bara svipað og skrímslið í Breiðholti“

Einn þessara ósáttu íbúa er Freyr Gunnarsson sem segir í samtali við mbl.is að þessar hugmyndir gangi þvert gegn fyrri yfirlýsingum bæjaryfirvalda. Þá hafi íbúar óskað eftir fundi með bæjaryfirvöldum vegna málsins en þau hafnað þeirri beiðni.

„Það var alltaf talað um að það ætti ekki að byggja fyrir neðan Garðbraut. Það ætti að halda þessu útivistarsvæði og þessari sveitarómantík og bla bla bla. Það var nú allt að fljúga út um gluggann núna,“ segir Freyr.

Hann segir að húsnæðið eigi einnig að vera gríðarlega hátt þar sem byggja þurfi fimm undir húsið svo það sé í það minsta fimm metrum yfir sjávaryfirborði. „Þetta er niður við fjöru, og það þarf að byggja fimm metra undir húsið. Þetta verður átta metra hátt eða eitthvað,“ bætir hann við.

„Þetta verður bara svipað og skrímslið í Breiðholti.“

Freyr segir að íbúar hafi óskað eftir fundi með bæjaryfirvöldum …
Freyr segir að íbúar hafi óskað eftir fundi með bæjaryfirvöldum vegna málsins en yfirvöld hafi hafnað þeirri beiðni. mbl.is/Sigurður Bogi

Loftslagsbeytingar og landsig

Það eru ekki bara íbúar sem lýsa áhyggjum sínum af þessum hugmyndum. Hinar ýmsu stofnanir hafa einnig veitt umsagnir. Meðal þeirra er Veðurstofa Íslands, sem bendir á að skipulagssvæðið liggi á eða nærri flóðasvæði.

„Með hækkandi sjávarstöðu mun flóðahætta aukast á svæðinu,“ skrifar Veðurstofan og bendir á að loftslagsbreytingar og landsig gætu haft áhrif á sjávarflóðahættuna. „Mikilvægt er að skipulagsaðilar geri grein fyrir flóðahættu á skipulagssvæðinu og því hvernig takast skal á við hana.“

Veðurstofan áréttar að vegna loftslagsbreytinga séu sjávarflóð vaxandi áhættuþáttur við strendur landsins og mikilvægt að hafa sérstaka aðgát við skipulag á lágsvæðum.

Umhverfisstofnun bendir á að í greinargerð aðalskipulags komi fram að svæðið sé á náttúruminjaskrá og nefnist „Fjörur og tjarnir á Romshvalanesi“.

Minjastofnun bendir einnig á að ganga þurfi í fornleifakannanir áður en framkvæmdir geti hafist eða tryggja að verði ekki fyrir raski. Þar séu hólar og tóftir þar sem ganga þurfi úr skugga um að ekki leynist minjar.

„Fellur ekki að núgildandi aðalskipulagi Suðurnesjabæjar“

Sólveig Sigrún Oddsdóttir, íbúi að Gauksstaðavegi, mótmælir aðgerðunum í umsögn sinni og þeirri auknu umferð sem muni sennilega fylgja.

„Það búa börn í götunni og væri þessi rólega gata ekki lengur örugg vegna aukinnar umferðar. Ég legg til að skoðuð verði önnur úrræði fyrir veg að hótelinu,“ skrifar hún.

Sigurður Páll Ebeneser Sigurðsson leggur einnig orð í belg:

„Ég sem íbúi Gauksstaðavegar mótmæli framkvæmdum við Gauksstaði vegna aukinnar umferðar á öllum tímum sólarhrings og ónæðis vegna ferðamanna. Mun þessi framkvæmd skerða mikið útsýni frá íbúðarhúsnæði mínu auk þess að mikil flóðahætta er á þessu svæði þar sem þessi hús eiga að rísa.“

Jóhanna Amelía Kjartansdóttir skrifar:

„Margt í þessari tillögu fellur ekki að núgildandi aðalskipulagi Suðurnesjabæjar. Þar er m.a. talað um verndun lífríkis og landslags, takmarkaða uppbyggingu á viðkvæmri strandlengjunni, ferðaþjónusta gangi ekki á náttúru- og menningarminjar og valdi ekki íbúum óþægindum. Nýta á nálægð skóla við náttúru til útiveru og fræðslu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert