„Ísland hefur veitt mér mikinn innblástur“

Patman var skipuð sendiherra í ágúst 2022.
Patman var skipuð sendiherra í ágúst 2022. mbl.is/Eyþór

Carrin F. Patman, fráfarandi sendiherra Bandaríkjanna á Íslandi, segir Ísland hafa veitt sér mikinn innblástur. Það hafi breytt lífi hennar og viðhorfum til margra hluta að vera sendiherra hér á landi.

Patman, sem var skipuð sendiherra í ágúst 2022, heldur af landi brott í næstu viku eftir viðburðaríka sendiherratíð. Mun næstráðandi hennar í sendiráðinu, Erin Sawyer, stýra sendiráðinu þar til nýr sendiherra lendir á Íslandi og hefur störf. Tímasetningin á því liggur ekki fyrir en skýrist eftir innsetningu Donald Trump í embætti Bandaríkjaforseta 20. þessa mánaðar.

Náði langt í lögmennsku

Eins og fram kom í samtali Morgunblaðsins við Patman 16. mars í fyrra útskrifaðist hún úr lagadeild Texas-háskóla árið 1982 og gekk til liðs við lögmannsstofuna Bracewell í Houston. Þar starfaði hún í þrjá áratugi sem málafærslumaður. Gætti hagsmuna skjólstæðinga sinna í réttarsal, yfirleitt sem verjandi í málum þar sem fyrirtæki tókust á.

Patman var fyrsta konan í sjö manna stjórn stofunnar, sem var með nokkur hundruð starfsmenn og skrifstofur í tíu löndum. Síðar hafði Patman mikil áhrif á uppbyggingu samgönguinnviða í Houston. Hún er gift lögmanninum James V. Derrick og eru þau búsett í Texas.

Patman er gift lögmanninum James V. Derrick.
Patman er gift lögmanninum James V. Derrick. mbl.is/Árni Sæberg

Merkileg nýsköpun á Íslandi

Patman er sem áður segir á heimleið og við þau kaflaskil er hún beðin um að gera upp sendiherratíð sína á Íslandi.

„Það hefur verið afar lærdómsríkt að starfa hér. Ég hef meðal annars kynnt mér byltingarkenndar lausnir hjá nýsköpunarfyrirtækjum í loftslagsmálum og sjálfbærni. Ég snæddi um daginn hádegisverð með Þór Sigfússyni hjá Sjávarklasanum, en ég myndi gjarnan vilja sjá útibú frá Sjávarklasanum við strönd Mexíkóflóa. Houston er enda nærri ströndinni og engin ástæða til að vera ekki með slíkt þróunarstarf í sjávarútvegi,“ segir Patman.

Mörg íslensk nýsköpunarfyrirtæki hafi þróað byltingarkennda tækni en þar megi nefna Kerecis og Össur.

„Maðurinn minn, Jim, hitti einmitt nýverið mann í jólaboði í Houston sem hafði fengið gervifót frá Össuri. Einnig má nefna matvælafyrirtækið Good Good, en ég held ég fari rétt með að fyrirtækið hyggist opna skrifstofu í Austin [höfuðborg Texas], óhagnaðardrifna geirann og alla nýsköpunina til að takast á við alþjóðlegar áskoranir. Svo eru það skólarnir. Ég hef gert mér far um að heimsækja háskólana á ferð minni um Ísland og ræða við nemendur, sem hefur verið afar gefandi. Þannig að ég fer héðan með margar hugmyndir í farteskinu og Ísland hefur veitt mér mikinn innblástur. Það hefur svo sannarlega breytt lífi mínu og viðhorfum til margra hluta að vera sendiherra hér,“ segir Patman.

Ítar­legt viðtal er við Carrin F. Patman í laugardagsblaði Morg­un­blaðsins. 

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert