Anna Jörgensdóttir, íbúi við Valshlíð á Hlíðarenda, segir fyrirhugaða uppbyggingu 245 íbúða á nærliggjandi lóð munu rýra mjög lífsgæði íbúa í hverfinu. Allt of langt sé gengið í að þétta byggð í borginni.
Umrædd lóð er í eigu Knattspyrnufélagsins Vals.
Sagt var frá því í Morgunblaðinu 22. ágúst 2023 að fulltrúar Vals hefðu sent borginni ósk um að fá að breyta hluta af æfingasvæði félagsins í íbúðalóð. Þ.e.a.s. á svonefndum J-reit.
„Þessi hluti æfingasvæðisins, sá vestasti, er nú í órækt og að hluta notaður sem geymslusvæði. Austan við hann eru tveir æfingavellir með gervigrasi og þeir verða áfram í notkun. Á milli vallanna tveggja er reiknað með því að fyrirhuguð borgarlína komi. Erindi Vals er til meðferðar hjá skipulagsfulltrúa Reykjavíkur,“ sagði í blaðinu.
Nánar var fjallað um málið í blaðinu 12. október 2023. Þar kom fram að Valur hefði sótt um að fá að bæta við 108 íbúðum á svonefndum A-reit og hafa alls 175 íbúðir á reitnum.
Er því í undirbúningi að byggja 245 og 175 íbúðir á tveimur lóðum í eigu Vals, alls 420 íbúðir, en það gæti skilað félaginu tæpum fimm milljörðum, sé tekið mið af söluverði lóðar undir 65 íbúðir á Nauthólsvegi 79, gegnt A-reit. Er borgin nú að yfirfara athugasemdir út af A-reit.
Anna Jörgensdóttir segir lóðina þar sem reisa á 245 íbúðir, J-reitinn, árum saman hafa verið til mikils ama fyrir íbúa hverfisins.
„Við íbúar erum margir, ef ekki flestir, mjög ósáttir við þau áform Vals og Reykjavíkurborgar að byggja risablokk með 245 íbúðum en þarna átti að vera grænt svæði eða íþróttavöllur samkvæmt gildandi deiliskipulagi. Við keyptum íbúðir okkar af félaginu Hlíðarfæti, sem var að mestu í eigu Vals, og aldrei var minnst á hugmyndir um að byggja á svæðinu og er forsendubrestur margra íbúa því algjör,“ segir Anna.
Umfjöllunina má lesa í heild sinni í laugardagsblaði Morgunblaðsins.