Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir það ekki vera á dagskrá hjá sér að bjóða sig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum. Hún kveðst ekki hafa leitt hugann að framboði til varaformanns eða ritara á komandi landsfundi í lok febrúar.
Þetta segir hún í samtali við mbl.is.
Kemur til greina að þú bjóðir þig fram til formennsku í Sjálfstæðisflokknum?
„Það er ekki á dagskrá hjá mér eins og sakir standa enda stór verkefni fram undan í Kópavogi sem ég vil leiða áfram,“ svarar Ásdís.
Miðstjórn Sjálfstæðisflokksins ákvað á fundi sínum í hádeginu að breyta ekki dagsetningu landsfundar flokksins. Fer hann því fram dagana 28. febrúar til 2. mars.
Ásdís kveðst aðspurð ekki hafa leitt hugann að framboði til varaformanns eða ritara.
Bjarni Benediktsson, formaður Sjálfstæðisflokksins, tilkynnti 6. janúar að hann myndi ekki sækjast eftir endurkjöri.