Vísað úr landi en þarf að fara í skurðaðgerð

Til stendur að brottvísa fjölskyldu á flótta til Venesúela fimmtudaginn …
Til stendur að brottvísa fjölskyldu á flótta til Venesúela fimmtudaginn 16. janúar. Emma, þriggja ára dóttir foreldranna, glímir við mjaðmalos og er á biðlista fyrir skurðaðgerð í febrúar. Ljósmynd/Aðsend

Þriggja ára gömul stúlka á flótta er á biðlista fyrir nauðsynlega mjaðmaraðgerð á Landspítalanum í febrúar. En líklega verður ekkert af því þar sem vísa á barninu úr landi á fimmtudag.

Foreldrar stúlkunnar hafa þungar áhyggjur af heilsu hennar og segja hana ekki getað fengið sömu hjálp í heimalandinu, Venesúela.

Emma Alessandra Reyes Portillo, fædd 7. mars 2021, kom hingað til lands með foreldrum sínum sumarið 2023, þá tveggja ára gömul, en þau eru hælisleitendur frá Venesúela.

Emma gekkst undir skurðaðgerð í febrúar 2024 vegna mjaðmaloss og þarf nú, samkvæmt læknisvottorði sem mbl.is hefur undir höndum, að vera í stöðugu eftirliti sérfræðinga. Fyrri aðgerðin er að sögn læknis afar flókin og þurfti sérfræðinga erlendis frá til að framkvæma hana.

„Þetta skiptir afar miklu máli fyrir líf og heilsu Emmu Alessöndru í framtíðinni og því æskilegt að hún sé hér áfram undir eftirliti okkar sem stóðu að þessari aðgerð og allri umhugsun sem er afar flókin,“ segir í læknisvottorði.

Nú þarf Emma að fara í aðra aðgerð til þess að fjarlæga plötu úr lærlegg hennar þar sem mjöðmin var opinberuð. Hún er á biðlista fyrir þeirri aðgerð í næsta mánuði, í febrúar.

Emma fór í skurðaðgerð vegna mjaðmaloss í febrúar 2024 og …
Emma fór í skurðaðgerð vegna mjaðmaloss í febrúar 2024 og þarf samkvæmt læknisvottorði að vera í stöðugu eftirliti sérfræðinga næstu ár, annars er hætta á því að hún verði fötluð það sem eftir er. Ljósmynd/Aðsend

Aðgerðin „nær ómöguleg“ í Venesúela

Foreldrar Emmu, hinn 28 ára Eleomar Alexander Reyes Perez og hin þrítuga Angelyn Katiuska Portillo Perez, segja við mbl.is að þau óttist að dóttir sín verði fötluð það sem eftir er lífsins ef hún fær ekki réttu þjónustuna.

„Heilbrigðiskerfið í Venesúela er ekki svo gott. Það er mjög erfitt fyrir Emmu að fá hjálp í Venesúela og aðgerðin sem hún þarf er nær ómöguleg eða mjög-mjög dýr,“ segir Angelyn.

„Þau [stjórnvöld á Íslandi] segja að það sé mögulegt fyrir Emmu að fá aðstoð í Venesúela, en það er ekki satt,“ bætir Eleomar við.

„Heilbrigðiskerfið heima er ekki svo gott. Það er mjög erfitt …
„Heilbrigðiskerfið heima er ekki svo gott. Það er mjög erfitt fyrir Emmu að fá hjálp í Venesúela og aðgerðin sem hún þarf er nær ómöguleg eða mjög-mjög dýr,“ segir Angelyn, móðir Emmu. Ljósmynd/Aðsend

Bróðurnum var rænt og síðan banað

Angelyn og Eleomar segjast hafa flúið landið eftir að bróður Eleomars var rænt og hann myrtur í kjölfarið. Eleomar telur sig og fjölskyldu sína því ekki vera örugga í Venesúela og þegar nú stendur til að vísa fjölskyldunni frá Íslandi, kveðst hann hræddur.

Þá segja þau einnig að stjórnarástandið í landinu sé afar slæmt, þar sem Nicolás Maduro var á föstudag vígður í forsetaembættið í þriðja sinn eftir margumdeildar kosningar í haust.

Foreldrarnir viðurkenna að það hafi samt heldur ekki verið neinn dans á rósum að búa sem flóttamaður á Íslandi í eitt og hálft ár. En þeim finnst þau þó örugg hér.

„Hér hefur verið erfitt, að geta ekki unnið eða keypt sér hluti, að búa í flóttamannahúsnæði og þannig. En ef Emma er ánægð og í góðu standi finnst okkur við örugg hér. Hér fær hún hjálpina sem hún þarf á að halda,“ segir Eleomar.

Hin þriggja ára Emma Alessandra Reyes Portillo.
Hin þriggja ára Emma Alessandra Reyes Portillo. Ljósmynd/Aðsend

ÖBÍ lýsa einnig áhyggjum

ÖBÍ lýsir einnig áhyggjum af aðstæðum fjölskyldunnar og hvetur til að tryggja að Emma fái þá heilbrigðisþjónustu sem hún þarf.

Samtökin vísa til barnasáttmála Sameinuðu þjóðanna og samnings SÞ um réttindi fatlaðs fólks er þau benda á skyldur stjórnvalda til að tryggja sérstök réttindi barna og fatlaðra barna.

„ÖBÍ fær ekki betur séð en að hætta sé á að heilbrigði Emmu yrði stefnt í hættu yrði henni gert að yfirgefa landið. Hætta sé á að hún verði alvarlega fötluð njóti hún ekki viðeigandi eftirfylgni eftir þá aðgerð sem hún gekkst undir hér á landi. ÖBÍ hvetur til þess að íslensk stjórnvöld tryggi að Emma fái notið réttar síns til besta heilsufars. Tryggt verði að hún fái þá meðhöndlun sem hún þarfnast að mati sérfræðinga,“ segir í erindi sem ÖBÍ. Jón Sigurðsson, lögmaður fjölskyldunnar, hefur óskað eftir frestun réttaráhrifa en þeirri beiðni hefur verið vísað frá.

Þannig að óbreyttu verður fjölskyldan send úr landi og sem fyrr segir sér hún ekki fyrir sér að Emma fái þá hjálp sem hún þarf í Venesúela.

„Ég held að það sé ómögulegt vegna ástandsins í landinu,“ segir Angelyn að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert