Atkvæði líka í súginn í Norðausturkjördæmi

Það var víðar en í Kópavogi sem utankjörfundaratkvæði ónýttust.
Það var víðar en í Kópavogi sem utankjörfundaratkvæði ónýttust. Morgunblaðið/Unnur Karen

Það var ekki aðeins í Suðvesturkjördæmi sem atkvæði greidd utan kjörfundar fyrir síðustu alþingiskosningar misfórust. Það henti einnig í Norðausturkjördæmi. Þetta staðfestir Gestur Jónsson, formaður yfirkjörstjórnar í kjördæminu, í samtali við Morgunblaðið.

Segir Gestur að ellefu dögum eftir kosningar hafi yfirkjörstjórn borist kassi með utankjörfundaratkvæðum sem send voru norður flugleiðis frá Reykjavík.

„Það var lítið hægt að gera með þau. Við fengum að vita af því að það væri sending til okkar og við fengum hana 11. desember,“ segir Gestur.

Atkvæðin send með flugi

„Atkvæðin voru send með flugi, en ég veit ekki hvar þau stoppuðu. Það kom í ljós þegar kassinn var opnaður að þetta voru utankjörfundaratkvæði. Við lokuðum honum aftur enda getum við ekki unnið með það sem kemur svona seint. Það vissi enginn að þessi atkvæði væru á leiðinni,“ segir Gestur og bætir við að landskjörstjórn hafi verið tilkynnt um atvikið. Kassinn með atkvæðunum sé enn til staðar.

„Það er full ástæða til að endurskoða vinnubrögðin við sendingu atkvæða á milli kjördeilda,“ segir hann.

Í ljós hefur komið að atkvæðin sem urðu innlyksa á bæjarskrifstofum Kópavogs 29. nóvember sl. voru ekki 12-15 talsins eins og bæjarritari tjáði Morgunblaðinu í skriflegu svari og sagt var frá í gær. Þau voru 25 talsins.

Tvö utankjörfundaratkvæði hætt komin

Þá voru og tvö utankjörfundaratkvæði hætt komin, en Ragna Björk Þorvaldsdóttir sem búsett er í Austurríki flutti þau til landsins og reyndi að koma þeim til skila á skrifstofum bæjarins.

Segir hún þau hjónin hafa greitt atkvæði í sendiráðinu í Vín og reynt að koma þeim á bæjarskrifstofurnar laust eftir klukkan 13 föstudaginn 29. nóvember.

„Þar kom ég að öllu lokuðu. Þar var maður að ganga út með kjörkassa í fanginu,“ segir hún og kveðst hafa óskað eftir því að koma atkvæðunum af sér. Segir hún manninn hafa sagt að hún væri of sein, því bæjarskrifstofunum væri lokað klukkan eitt eins og vitað væri.

„Það kom mér spánskt fyrir sjónir að daginn fyrir kjördag væri skrifstofunum lokað klukkan eitt og enginn leiðarvísir um hvert ætti að fara með atkvæðin,“ segir Ragna Björk.

Kveðst hún hafa spurt hvað gera ætti og fengið það svar að viðkomandi héldi að atkvæðunum ætti að skila í Holtagörðum, hvað hún gerði síðan.

„Mér finnst furðulegt að ekki skuli vera opið á bæjarskrifstofunum daginn fyrir kjördag,“ segir hún.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert