Engin tengsl á milli hlaupsins og hrinunnar

Grímsvötn og hamrar Grímsfjalls.
Grímsvötn og hamrar Grímsfjalls. mbl.is/Ragnar Axelsson

Engin tenging er á milli öflugrar skjálftahrinu sem hófst í Bárðarbungu í morgun og jökulhlaupsins sem hófst í Grímsvötnum í gær.

Þetta segir Magnús Tumi Guðmundsson, prófessor í jarðeðlisfræði við Háskóla Íslands, í samtali við mbl.is.

Bárðarbunga og Grímsvötn eru tvær af sjö megineldstöðvum undir Vatnajökli. 

Hægðist á Grímsvötnum

„Það eru hundruð kílómetra frá Bárðarbungu í Grímsvötn og þetta tengist ekki neitt saman, að það fari að leka úr Grímsvötnum,“ segir Magnús.

Nefnir hann að eldstöðvarnar tvær hafi í gegnum tíðina sýnt merki um að þegar herði á Bárðarbungu þá séu Grímsvötn frekar til hlés – og öfugt.

„Það eru mælar sem sýna að það hefur verið kvikusöfnun í Grímsvötnum alveg eftir gosið sem var 2011. En núna þegar Bárðarbunga herti á sér síðasta árið virðist heldur hafa hægt á sér í Grímsvötnum og svona var þetta eins fyrir gosið 2014,“ segir Magnús.  

Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur.
Magnús Tumi Guðmundsson jarðeðlisfræðingur. mbl.is/Árni Sæberg

Stærsti skjálftinn 5,1 að stærð

Jarðskjálftahrinan sem hófst í Bárðarbungu í morgun er sú kröftugasta frá því eldgos braust úr eldstöðinni og kom upp í Holuhrauni árið 2014. 

Stærsti skjálftinn mældist klukkan 8.05 í morgun og var 5,1 að stærð að mati Veðurstofu.

Síðan hafa tugir skjálfta mælst á svæðinu í norðurhluta Bárðarbungu. Hreyfingarnar í jarðskjálftunum eru taldar vera í samræmi við aukna þenslu af völdum kvikusöfnunar sem hefur staðið yfir frá síðustu eldsumbrotum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert