Óttast um einhverfan son sinn eftir ítrekuð mistök

Rand er tólf ára gamall og er í Klettaskóla.
Rand er tólf ára gamall og er í Klettaskóla. Ljósmynd/Aðsend

Foreldrar tólf ára drengs með einhverfu segjast ekki lengur geta treyst Pant, akstursþjónustu fatlaðra, sem sonur þeirra reiðir sig á til að komast til og frá skóla á hverjum degi, eftir endurtekin mistök. Drengurinn er í Klettaskóla.

Á síðustu þremur árum hafa komið upp atvik þar sem drengnum hefur verið skutlað í rangan skóla, öðru barni hefur verið skutlað heim til þeirra og drengurinn þá skilinn eftir í skólanum, eða honum skutlað heim á röngum tíma.

Mohamed Sabir, faðir drengsins, kveðst hræddur enda sé drengurinn einhverfur og geti ekki talað.

„Ef hann týnist þá verður það mjög erfitt því hann getur ekki tjáð sig,“ segir Mohamed í samtali við mbl.is.

Heppni að einhver kom til dyra

Rand Sabir er tólf ára nemandi í Klettaskóla. Rand finnst erfitt að ferðast og nota foreldrar hans því tímann þegar hann er í skólanum og frístund til að sinna alls kyns erindum.

Það var lán í óláni að foreldrar hans skyldu hafa verið heima síðasta föstudag þegar Rand var skutlað heim langt á undan áætlun.

Enginn hafði fylgt drengnum upp að dyrum og því erfitt að ímynda sér hvað hefði gerst hefðu foreldrar hans ekki tekið á móti honum.

„Við erum hrædd um að þetta gerist aftur. Þetta ætti ekki að gerast. Við erum í uppnámi og hrædd,“ segir Mohamed. 

Hann sendi tölvupóst á Pant eftir atvikið en segist engin svör hafa fengið.

Skutlað í Tækniskólann

Þetta er þó ekki í fyrsta skiptið sem mistök verða.

Fyrir þremur árum, þegar Rand var níu ára, var honum skutlað í rangan skóla um morguninn. 

Atvikið komst upp þegar hringt var í Mohamed frá Klettaskóla og spurt hvar drengurinn væri, hann hefði ekki komið um morguninn.

„Ég sagði að hann hefði farið í skólann fyrir fjörutíu mínútum. Þau sögðu að hann væri ekki þar,“ rifjar Mohamed upp og kveðst hafa kviðið því að upplýsa eiginkonu sína um hvað hefði gerst. 

Það var ekki fyrr en skömmu síðar, þegar það uppgötvaðist að drengnum hafði verið skutlað í Tækniskólann, sem hann treysti sér að segja móður Rands frá atvikinu.

Hann segir yfirmann hjá Pant hafa hringt í sig og beðið fjölskylduna afsökunar. 

Skiluðu röngu barni heim

„Í seinna skiptið höfðu þau ekki fyrir því að hafa samband,“ segir Mohamed og vísar þá til atviks sem kom upp nokkru síðar þar sem öðrum dreng var skutlað heim til fjölskyldunnar í stað Rands.

Eins og Rand er drengurinn einhverfur og getur ekki talað. Enginn hafði fylgt honum upp að dyrum.

„Við fengum hann inn á meðan við biðum eftir að rútan kæmi aftur og myndi sækja hann. Hann gat ekki tjáð sig. Hann var einn og kaldur,“ segir Mohamed.

Rand hafði þá verið skilinn eftir í frístund þegar hann átti að koma heim eftir skóla. Sem betur fer fór allt vel, en Mohamed segist kvíða þeirri stund þegar önnur mistök verða og hlutirnir ganga ekki upp.

Íhuga að nota GPS-tæki

Rand er með miða á sér með nafni sínu og símanúmerum foreldra sinna. 

Íhuga foreldrarnir nú að láta GPS-tæki í bakpoka drengsins til að vera öruggir um að geta fylgst með ferðum hans.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert