Vatn lak inn á bensíntank N1 í Hveragerði og hefur dælunni verið lokað.
Alls dældu 75 ökumenn eldsneyti á ökutæki sín frá því að lekinn varð og þar til hann uppgötvaðist. Þónokkrir bílar biluðu í kjölfarið, þar á meðal nokkrir sem að þurftu að stöðva í Kömbunum.
Umfang tjónsins vegna lekans liggur ekki fyrir.
Þetta staðfestir Reynir Leósson, aðstoðarframkvæmdastjóri N1, í samtali við mbl.is.
Fyrirtækið telur líklegt að vatnið hafi lekið inn á dæluna í leysingum aðfaranótt mánudags. Lekinn uppgötvaðist síðdegis í gær vegna kvartana viðskiptavina og var dælunni í kjölfarið lokað.
N1 og samstarfsfyrirtæki þeirra Olíudreifing skoða nú annars vegar hvernig vatnið komst inn á tankinn og hins vegar hvers vegna búnaðurinn, sem á að vakta og láta vita ef vatn kemur inn á tankinn, gaf ekki frá sér viðvörun.
Reynir segir fyrirtækið leggja áherslu á að leysa þetta hratt og örugglega.
Starfsmenn fyrirtækisins vinna nú að því að hafa samband við alla þá ökumenn sem tóku eldsneytinu úr bensíntanknum sem vatnið lak inn á.
Hann segir N1 vita hversu margir tóku eldsneyti á þessu tímabili en hann sé ekki með upplýsingar um fjölda ökutækja sem biluðu í kjölfar atviksins, þau hafi þó ekki verið mörg. Þá liggi umfang tjónsins ekki fyrir.
Náðst hefur í langflesta en N1 hvetur þá ökumenn, sem enn hefur ekki náðst samband við, til að setja sig í samband við N1 með því að hringja í síma 440-1000 eða senda tölvupóst á netfangið silja@n1.is.