Lítillar jarðskjálftavirkni hefur orðið vart í Bárðarbungu frá því áköf jarðskjálftahrina varð þar í gærmorgun á milli kl. 6 og 9.
Stakur skjálfti af stærð 2,4 mældist kl. 17.17 síðdegis í gær, annars hefur lítill titringur orðið.
Eins og fram hefur komið var jarðskjálftahrinan sú kröftugasta frá því eldgos braust út úr eldstöðvakerfi Bárðarbungu í Holuhrauni árið 2014.
Hreyfingar í jarðskjálftunum þykja samræmast aukinni þenslu sökum kvikusöfnunar sem hefur staðið yfir frá síðustu eldsumbrotum.
Jarðskjálftavirkni hefur farið vaxandi í Bárðarbungu og til að mynda mældust fjórir skjálftar um eða yfir 5 að stærð á síðasta ári.
Samhliða því hefur mælst hraðari aflögun vegna kvikuinnstreymis á dýpi undir Bárðarbungu.
Í tilkynningu frá Veðurstofu segir að nokkuð óvíst sé hver þróun þessarar virkni verði á næstunni og að ekki sé útilokað að jarðskjálftavirkni taki sig aftur upp.
Að svo stöddu verði fluglitakóði fyrir Bárðarbungu áfram gulur. Sólarhringsvakt Veðurstofu fylgist áfram með þróuninni.