Gular viðvaranir taka gildi eftir hádegi á Breiðafirði, Vestfjörðum og á Ströndum og Norðurlandi vestra.
Á þessum svæðum verður sunnan og suðvestan 15-23 m/s og vindhviður geta náð yfir 35 m/s við fjöll. Á Breiðafirði tekur viðvörunin gildi klukkan 13, á Vestfjörðum klukkan 15 og klukkutíma síðar á Ströndum og Norðurlandi vestra.
Það verður sunnan og suðvestan 13-20 m/s en hvassara í vindstrengjum á norðvestanverðu landinu seinnipartinn. Það verður rigning eða skúrir, en þurrt norðaustantil. Hitinn verður 3 til 9 stig.
Á morgun verður vestlæg átt 5-10 m/s á vestanverðu landinu með slyddu eða snjókomu og hita um frostmark, en stöku él seinnipartinn og það frystir. Austantil verður sunnan 8-13 m/s með rigningu með köflum en styttir upp síðdegis. Hitinn þar verður 3-8 stig en það kólnar undir kvöld með slyddu og spáð er talsverðri snjókomu austantil um nóttina.