Rennsli í Ölfusá hefur vaxið í allan dag og náði mest 1.380 rúmmetrum á sekúndu fyrr í kvöld. Einari Sveinbjörnssyni veðurfræðingi reiknast svo til að þetta sé mesta flóð í ánni frá leysingaflóði sem gerði í lok febrúar árið 2013.
Einar skrifar um rennsli Ölfusár á Facebook-síðu veðurvefsins Bliku.
„Rennslið þá varð mest 1.420 rúmmetrar á sek. Þá var varað sérstaklega við flóðum í Hvítá og Ölfusá og bændur fylgdust með, m.a. vatnhæðarmælinum inni við Fremstaver ofarlega í Hvítá,“ skrifar Einar. Hann telur að líklega muni rennslið í Ölfusá minnka úr þessu.
Hann segir enn fremur að rennslið nú reiknast næstum 5 ára flóð samkvæmt nokkurra ára flóðagreiningu Veðurstofu Íslands, en rennsli 5 ára flóða er 1.400 rúmmetrar á sekúndu. Hann bendir á að stórflóðið fyrir jólin 2006 hafi verið talsvert miklu stærra og toppurinn þá mældust ríflega 1.800 rúmmetrar á sekúndu.
„Leysingin var þá miklu snarpari, dagana á undan setti niður auðleysta lausamjöll í talsverðum mæli og mikið rigndi,“ skrifar Einar.