Veginum þar sem bjarga þurfti tveimur ferðamönnum af bílþaki í nótt vegna flóðs hafði verið lokað fyrr um nóttina. Ungur maður frá Akureyri hafði tilkynnt flóðið til Neyðarlínunnar eftir að hafa sjálfur keyrt í gegnum vatnið rétt fyrir klukkan tvö.
Greint var frá málinu í morgun en stífla í ræsi undir veginum leiddi til þess að vatn flæddi yfir hann á stórum kafla. Ferðamenn á tveimur bílum lentu í vatninu en náðu að komast úr bílunum og upp á þak þeirra og var þeim bjargað af björgunarsveitinni Heiðar sem staðsett er á Varmalandi í Borgarfirði.
Útkall barst vegna atviksins upp úr klukkan fjögur í nótt.
Óliver Ísak Ólafsson, 22 ára karlmaður frá Akureyri, kveðst hafa gert yfirvöldum viðvart um flóðið, sem átti sér stað á hringveginum við Kattarhrygg, rétt rúmum tveimur tímum áður en björgunarsveitir voru kallaðar út.
Óliver var ökumaður bílsins og vinur hans í farþegasæti en einnig voru börn í bílnum frá 13-17 ára að aldri.
Voru þau öll að koma frá Tenerife í gærkvöldi þar sem þau voru í fjölskylduvinaferð en urðu foreldrar ungmennanna eftir úti á meðan ungmennin héldu heim.
„Það var ekkert geðveikt skyggni en við sáum alveg. Svo allt í einu erum við mætt ofan í vatnið. Ég tók bara andköf. Það var bara ómögulegt að sjá þetta á veginum. Þetta var mjög skrýtið,“ segir Óliver í samtali við mbl.is. Segir hann höggið við að lenda í vatninu hafi verið mjög þungt.
Hann tekur fram að hann hafi verið á stórum Toyota Tundra-bíl. Hins vegar eigi fjölskyldan hans einnig rafmagns Teslu-bíl sem hefði allt eins getað verið notaður til að koma ungmennunum heim. Óliver er feginn að sú varð ekki raunin.
„Þá held ég að ég og þú værum ekkert að eiga þetta samtal,“ segir hann við blaðamann mbl.is.
Segist Óliver hafa hringt í Neyðarlínuna stuttu síðar, klukkan 01.42, til að láta vita af ástandi vegarins.
Það hafi því komið honum á óvart að sjá fréttir af útkalli björgunarsveitar í nótt þar sem bjarga þurfti tveimur ferðamönnum sem stóðu á bílþaki sínu og bíll þeirra á bólakafi á svæðinu.
Segir hann ástæðuna fyrir því að hann hringdi í Neyðarlínuna vera svo hann þyrfti ekki að hafa á samviskunni að aðrir myndu lenda í svipuðu – sem um tveimur tímum síðar varð raunin.
„Þetta var bara eins og að fara á 90 km hraða ofan í einhverja laxveiðiá. Við stöðvuðumst eiginlega. Það var líka svo mikið vatn sem gaus þarna þegar við lentum í vatninu að við sáum ekkert fyrir framan okkur. Þetta var mjög óþægilegt,“ segir Óliver og undirstrikar á ný að ef þau hefðu verið á minni bíl þá hefði alveg getað farið verr.
Að sögn Sigríðar Ingu Sigurðardóttur, sem starfar hjá samskiptadeild Vegagerðarinnar, barst stofnuninni tilkynning frá lögreglu eftir að Óliver hafði látið vita um ástand vegarins.
Ákvað Vegagerðin í kjölfarið að loka veginum og voru upplýsingar um það settar á upplýsingaskilti sem standa við veginn sem og á vef Vegagerðarinnar. Einnig var ákveðið að staðan yrði endurmetin klukkan 6 í morgun en var þá skaðinn skeður.