Viðbúin ef hlutirnir þróast til verri vegar

Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi, í aðgerðastjórn almannavarna á Húsavík …
Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi, í aðgerðastjórn almannavarna á Húsavík í dag. Samsett mynd/mbl.is/Hafþór Hreiðarsson/Árni Sæberg

„Við erum orðin svo vön einhverjum svona látum en það er alltaf gott að vera viðbúin ef hlutirnir þróast til verri vegar. Við erum það klárlega hérna og vinnum bara með það sem að höndum ber,“ segir Grímur Kárason, slökkviliðsstjóri í Norðurþingi.

Aðgerðastjórn verður opin á Húsa­vík á milli klukk­an átta og tólf næstu daga eftir að lög­regl­an á Norður­landi eystra virkjaði viðbragðsáætl­un vegna auk­inn­ar jarðskjálfta­virkni í Bárðarbungu.

Samtalið er virkt

„Við viljum sjá svona til ef það koma einhverjar spurningar inn frá íbúum í sveitarfélaginu sem þetta gæti snert ef eitthvað gerðist,“ segir Grímur. Fólk er aðeins byrjað að hafa samband að hans sögn en þó ekki í miklum mæli. Segir hann t.d. um að ræða fólk sem tengist skólum og öðru í þeim dúr og sé með börn á ferðinni á milli svæða.

Fjarfundir hafa verið haldnir með viðbragðsaðilum í umdæminu. Margar björgunarsveitir eru á svæðinu og segir Grímur að fundað hafi verið með svæðisstjórn Landsbjargar á svæði 12 í morgun.

Í gær hafi þá verið fundað með sveitarstjórum þeirra tveggja sveitarfélaga sem eru á áhrifasvæði flóða ef þau yrðu, annars vegar í Þingeyjarsveit og hins vegar í Norðurþingi. 

„Þar fórum við bara yfir þá stöðu og þær upplýsingar sem við höfum fengið frá okkar fagfólki á Veðurstofunni og á almannavarnadeildinni. Það er bara verið að setja menn aðeins meira upp á tærnar en dags daglega,“ segir Grímur.

Hætta á jökulflóði

Í greiningu á áhættu- og áfallaþoli í sveitarfélaginu sem staðfest var í sveitarstjórn á síðasta ári kemur fram að helstu hætturnar sem steðji að sveitarfélaginu Norðurþingi séu jarðskjálftar annars vegar og jökulflóð í kjölfar eldgoss í norðanverðum Vatnajökli hins vegar.

Grímur segir það svo sem alveg þekkt að eitthvað sé að gerast í jöklinum. Viðbragðsáætlun lögreglu geri ráð fyrir því að hægt sé virkja hana á óvissustigi sem í raun og veru segi ekki neitt annað en að viðbragðsaðilar tengdir verkefninu yfirfari sín hlutverk í áætluninni ef eitthvað framhald yrði á.

„Menn svona opna plöggin og dusta rykið kannski af þeim hlutverkum sem bíða manna ef ástandið fer yfir á hættustig eða neyðarstig.“

Plaggið til frá 2014

Minnist Grímur á að viðbragðsaðilar eigi ágætis mynd af óróa í jöklinum en virk aðgerðastjórn stóð yfir í sex mánuði í eldgosinu í Holuhrauni árið 2014. Segir hann að þá hafi verið viðhöfð sams konar viðbrögð og áætlun gerir ráð fyrir í dag þar sem m.a. er gert ráð fyrir rýmingu ef kemur til jökulflóðs.

„Þetta plagg er til með fyrirskrifuðum hlutverkum allra viðbragðsaðila sem eru hér í umdæminu.“

Ekki er að heyra annað en að Grímur sé nokkuð rólegur yfir stöðunni. Segir hann aðgerðastjórn í stöðugu samtali við okkar færustu vísindamenn sem séu best til þess fallnir að segja til hvað þetta gæti í raun og veru leitt af sér.

„Þau eru fagfólkið í þessu og við treystum á þeirra vitneskju og þekkingu.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert