Donald Trump verður svarinn í embætti forseta Bandaríkjanna í annað sinn 20. janúar í innsetningarathöfn við þinghúsið í Washington D.C. Verður Trump 47. forseti landsins og tekur við af Joe Biden, sem hefur verið í embætti undangengin fjögur ár.
Sjálfur var Trump fyrirrennari Bidens frá 2017. Hann er fyrsti forsetinn til að gegna embætti í tvígang síðan Grover Cleveland árið 1893.
Ekki er hefð fyrir að erlendum þjóðhöfðingjum sé boðið að vera við innsetningu forseta Bandaríkjanna en Trump rauf þá hefð árið 2017 þegar hann bauð meðal annarra Theresu May og Benjamín Netanjahú, forsætisráðherrum Bretlands og Ísraels. Þannig undirstrikaði hann áhersluna á að efla tengsl við lykilbandamenn.
Á boðslistanum nú eru meðal annarra Xi Jinping forseti Kína, sem fréttir herma að muni senda varaforseta sinn eða utanríkisráðherra í sinn stað. Þá er Giorgiu Meloni og Viktor Orbán, forsætisráðherrum Ítalíu og Ungverjalands, boðið sem og Javier Milei forseta Argentínu. Halla Tómasdóttir forseti Íslands fékk ekki boð um að vera við innsetninguna frekar en fyrirrennarar hennar í embætti eða aðrir norrænir þjóðarleiðtogar.