Aldrei munu fleiri erlendir ferðamenn ferðast til Íslands en á þessu ári ef marka má farþegaspá Keflavíkurflugvallar. Spáin gerir ráð fyrir rúmum 2,32 milljónum erlendra ferðamanna á árinu, 9 þúsund fleiri en á metárinu 2018.
Alls munu um 8,37 milljónir farþega ferðast um flugvöllinn árið 2025 og nemur fjölgun þeirra 0,8% milli ára. Aðeins tvisvar hafa farþegar verið fleiri en þeir voru 8,76 milljónir 2017 og 9,8 milljónir 2018.
„Við horfum fram á hóflegan vöxt og þriðja stærsta ár Keflavíkurflugvallar hvað varðar farþegafjölda, og það stærsta í komu erlendra ferðamanna,“ er haft eftir Guðmundi Daða Rúnarssyni, framkvæmdastjóra viðskipta og þróunar á Keflavíkurflugvelli, í tilkynningu. Endurspegli spáin sterka stöðu Keflavíkurflugvallar sem tengistöðvar og Íslands sem eftirsóknarverðs áfangastaðar þrátt fyrir áskoranir á liðnu ári.
Ný austurálma flugstöðvarinnar verður tekin að fullu í notkun á árinu, þar á meðal fjórir nýir landgangar. Haft er eftir Guðmundi Daða að um mikilvægan áfanga sé að ræða í að bæta gæði og þjónustu flugvallarins. „Þessi þróun styrkir okkur í alþjóðlegri samkeppni og skapar betri upplifun fyrir gesti okkar og viðskiptavini.“
Mesta fjölgun milli mánaða frá fyrra ári verður samkvæmt spánni í apríl eða 16,7%. 26 flugfélög munu fljúga áætlunarflug yfir sumarmánuðina til 92 áfangastaða og 21 flugfélag til 70 áfangastaða yfir vetrarmánuðina. Áætlað er að hlutfall tengifarþega, farþega sem nýta Keflavíkurflugvöll sem tengistöð án þess að dvelja á Íslandi, verði um 30% af heildar farþegafjölda sem svipar til liðins árs.
Ferðalög Íslendinga til útlanda munu samkvæmt spánni aukast um 1% á milli ára. Spáin gerir ráð fyrir um 612 þúsund íslenskum ferðamönnum á leið til útlanda, sem jafngildir um 1,6 utanlandsferð hvers landsmanns yfir árið.
Farþegaspá Keflavíkurflugvallar byggir á greiningum og mati á þáttum sem hafa áhrif á eftirspurn farþega eftir flugi til og frá flugvellinum. Spáin er unnin út frá upplýsingum um afgreiðslutíma sem flugfélög hafa tryggt sér og upplýsingum úr kerfum Keflavíkurflugvallar til viðbótar við fréttir af áformum flugfélaga.