Hlaupórói í Grímsvötnum náði hámarki síðdegis í gær og hefur verið stöðugur síðan þá. Þetta segir Sigríður Magnea Óskarsdóttir náttúruvársérfræðingur í samtali við mbl.is.
„Hlaupið er sennilega í hámarki og ætti að fara að skila sér niður í Gígjukvísl hvað úr hverju. Við sjáum ekki merki um það enn þá, en ætti að fara að koma.“
Þá segir hún að það taki um einn til tvo sólarhringa fyrir vatnið að skila sér frá Grímsvötnum og niður í ána.
Eins og mbl.is greindi frá í gær eru til dæmi um að eldgos verði í Grímsvötnum í kjölfar þrýstiléttis á borð við þennan.
Því er ekki hægt að útiloka að eldgos verði, en mjög lítil skjálftavirkni er og engin merki um gosóróa að sögn Sigríðar.
Fluglitakóði er enn þá gulur að sinni en hann var færður upp á næsta stig, gult, í gær. Það merkir að eldstöð sýni virkni umfram venjulegt ástand.