„Við höfum byggt svona brýr áður sem hafa reynst vel, en það er alveg ljóst að það hefur eitthvað klikkað,“ segir Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni á Vesturlandi, um brúna yfir Ferjukotssíki sem féll í gær vegna mikilla vatnavaxta í Hvítá.
Hann viðurkennir að mögulega hefði átt að hlusta betur á gagnrýni íbúa á svæðinu sem töldu að brúin stæðist aldrei þau jakahlaup sem gætu orðið. En í tilkynningu á vef Vegagerðarinnar frá því í gær segir einmitt að brýr af þessu tagi geti ekki staðið af sér snöggt og þungt hliðarálag, líkt og jakahlaupið sem líklega varð í fyrrinótt.
Brúin er nýleg en hún var tekin í notkun í júní árið 2023. Átti hún að vera til bráðabirgða eftir að eldri brú skemmdist í flóðum í febrúar sama ár. Gert var ráð fyrir að endingartíminn yrði 10 til 15 ár.
„Pælingin var að koma þessari brú upp því stærra mannvirki er miklu dýrari og meiri framkvæmd heldur en við höfðum til umráða þarna. Það er á verkefnalista hjá okkur að hanna og endurbyggja veginn frá Ferjukoti og út að hringvegi. Ný brú er inni í þeirri vinnu en það eru kannski fimm til tíu ár þangað til farið verður í þá framkvæmd,“ segir Pálmi um ástæðu þess að slík bráðabirgðabrú var sett upp.
Brúin er einbreið úr stáli, með timburgólfi og hvílir á stauraoki úr timbri, að segir á vef Vegagerðarinnar. Sambærilegar brýr voru byggðar yfir Steinavötn og Múlakvísl og stóðu þær þann tíma sem þær voru í notkun, án vandræða.
Heiða Dís Fjeldsted, ábúandi í Ferjukoti, sagði í samtali við mbl.is í gær að íbúar hefðu gagnrýnt smíði brúarinnar á sínum tíma, en ekkert hefði verið hlustað.
„Það sögðu hér allir í kring að svona brú myndi aldrei virka, eins og var ákveðið að setja. Líka þeir sem voru hérna upp frá frá Vegagerðinni og framkvæmdu þetta, þeir töldu þetta ekki ganga. En það var ekki mikið hlustað á okkur, þannig að maður er pirraður yfir þessu,“ sagði Heiða.
Undirstöðurnar myndu aldrei þola það þegar jakarnir færu að koma úr Norðurárdal.
Pálmi segir að það eigi eftir að fara betur yfir hvað gerðist í gær þegar brúin yfir Ferjukotssíki féll.
Hefði ekki, eftir á að hyggja, verið gott að hlusta á þá sem búa þarna?
„Jújú, alveg klárlega. En við erum ekkert alveg búin að úthugsa hvað gerðist. Það er meira vatnssóp þarna undir. Mögulega hefði það bjargað hlutunum ef hún hefði verið öðruvísi staðsett.“
Ef það hefði verið hlustað betur á íbúa?
„Já mögulega. Ég get ekkert fullyrt neitt.“
Hann bendir á að tvær brýr hafi verið yfir Ferjukotssíkið sem báðar hafi skemmst í vatnavöxtum í febrúar 2023. Þær hafi báðar verið rifnar og ákveðið að fylla í skarðið með bráðabirgðabrú þar sem lengri brúin var staðsett.
„Eins og í öllu þá er fólk bara að reyna að gera sitt besta í þessari framkvæmd eins og annars staðar.“
Brúin er enn undir vatni og segir Pálmi að bíða þurfi þar til sjatnar í til að hægt sé að meta hvað þurfi að gera til að koma henni aftur upp.
„Það er ljóst á þeim myndum sem við höfum fengið að staurarnir öðru megin hafa kiknað. Það er væntanlega eitthvað skemmt og eitthvað ónýtt sem þarf að endurnýja og endurskoða. Við bíðum eftir því til að byrja með. Svo metum við stöðuna og förum betur yfir útlistun á því hvernig við bregðumst við.“
Hann gerir ráð fyrir að það liggi fyrir í næstu viku hvaða endurbætur þurfi að ráðast í.
Áfram sé gert ráð fyrir að það verði hægt að komast yfir síkið en síðast hafi verið settur upp vinnuvegur til að komast fram hjá meðan á framkvæmdum stóð.
Ekki ætti að líða langur tími þar til aftur verður hægt að komast um svæðið.
„Við erum fyrst og fremst að hugsa um að þjónusta þau í Ferjukoti. Þetta er ekki aðalleið, þetta er ekki stofnvegur eða aðalferðaleið. Fyrir flesta styttir þetta vegalengdir en mestu óþægindin eru fyrir þau sem búa þarna.“