Vatn hætti að flæða inn í kjallara á bænum Ferjukoti um miðnætti í gær, en þá hafði flætt inn frá því klukkan þrjú um daginn, vegna mikilla vatnavaxta í Hvítá.
Heiða Dís Fjeldsted, ábúandi í Ferjukoti, segir að dælurnar hafi ráðið vel við og náð að dæla út því vatni sem kom inn. Því hafi engar skemmdir orðið á húsnæðinu. Einhverjar skemmdir hafi þó orðið á girðingum og öðru, en hún segir það eiga eftir að koma betur í ljós hvernig staðan er.
Hún segir aðeins hafa sjatnað í ánni en vatnselgurinn sé þó enn mikill.
„Það er mikið af ís að koma niður núna, ísjökum og svona. Þannig það eru enn að ryðja sig einhverjar ár fyrir ofan.“
Hún hefur hins vegar ekki áhyggjur af því að það fari aftur að flæða inn, enda sé farið að kólna. Þá róist allt.
Líkt og fram hefur komið féll brúin yfir Ferjukotssíki í gærmorgun vegna vatnavaxtanna. Um er að ræða nýlega brú sem reist var til bráðabirgða eftir að skemmdir urðu á eldri brúnni í vatnavöxtum fyrir tveimur árum.
Brúin sem féll í gær var tekin í notkun í júní 2023, en íbúar á svæðinu gagnrýndu smíði hennar á sínum tíma. Sögðu hana aldrei geta staðist jakahlaup, sem reyndist svo rétt.
Heiða segir þau enn ekki hafa fengið neinar upplýsingar frá Vegagerðinni um framhaldið, en brúarleysið klýfur landið í Ferjukoti í sundur.
„Þeir hafa ekkert viljað segja hvað þeir vilja gera. Ætli þeir séu ekki að funda um það í dag, þessir sérfræðingar að sunnan. Þeir spyrja ekki okkur, en hafa lofað að halda okkur eitthvað upplýstum.“
Pálmi Þór Sævarsson, svæðisstjóri hjá Vegagerðinni á Vesturlandi, sagði í samtali við mbl.is í morgun að það myndi væntanlega liggja fyrir í næstu viku hvaða endurbætur þyrfti að ráðast í. Þá ætti eftir að fara betur yfir það hvað gerðist þegar brúin féll. Hann viðurkenndi jafnframt að mögulega hefði verið betra að hlusta betur á gagnrýni íbúa.
Hún bendir á að verðmæti séu í brúnni og gerir því ráð fyrir að hafist verði handa við að bjarga því sem bjargað verður um leið og sjatnar meira í ánni.
Heiða segir flóðin núna töluvert umfangsminni en fyrir tveimur árum, þegar báðar brýrnar yfir Ferjukotssíki skemmdust. Þá flæddi mun meira vatn inn í íbúðarhúsið.
„Þó að þeir hjá Vegagerðinni segi annað, eins og í gær, að þetta væru mestu jakar sem þeir hefðu séð, þá vorum við sitthvoru megin við ána sammála um að þetta væri ekki það mesta sem við hefðum séð. Það var miklu stærra flóð árið 2023 og miklu meira af jökum.“