Flutningi á handritunum úr Árnagarði við Suðurgötu í Reykjavík í Eddu – hús íslenskunnar lauk í gær.
Starfsfólk Stofnunar Árna Magnússonar í íslenskum fræðum bar út, undir lögregluvernd, þá tvo dýrgripi sem eftir voru í húsinu, þ.e. Skarðsbók Postulasagna og Króksfjarðarbók Sturlungu; aðalútgáfu þeirrar frægu sögu.
Í Árnagarði voru varðveitt alls um 2.000 handrit, 1.345 fornbréf og um 6.000 fornbréfauppskriftir. Fáein handrit voru flutt í nóvember síðastliðnum vegna sýningarinnar Heimur í orðum sem þá var opnuð á degi íslenskrar tungu í Eddu.
Handritastofnun Íslands eignaðist nokkur handrit nærri árinu 1970 og hafði þá aðsetur í Safnahúsinu við Hverfisgötu. Starfsemin var flutt í Árnagarð í aðdraganda þess að fyrstu handritin komu frá Kaupmannahöfn skv. samningi milli Íslands og Danmerkur um skiptingu safns Árna Magnússonar. Það var árið 1971.
Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag