Ákvörðun um áfrýjun hjá Landsvirkjun

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir liggja fyrir að bregðast þurfi við …
Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir liggja fyrir að bregðast þurfi við dómi héraðsdóms með ábyrgum hætti og að kannski sé ábyrgast á þessum tímapunkti að segja sem minnst. Samsett mynd/mbl.is/Karítas/Landsvirkjun

Kristrún Frostadóttir forsætisráðherra segir að bregðast þurfi við nýlegum dómi héraðsdóms, um ógildingu virkjunarleyfis í Hvammsvirkjun til handa Landsvirkjun, með ábyrgum hætti.

Kannski sé þó ábyrgast á þessum tímapunkti að segja sem minnst að hennar sögn. Dómurinn sé nýfallinn og að leyfa þurfi umhverfis-, orku og loftslagsráðherra og hans ráðuneyti að fara yfir málið. Þá segir hún ríkislögmann einnig fara yfir dóminn en í höndum Landsvirkjunar hvort honum verði áfrýjað.

Ríkisstjórnin leggi mikla áherslu á orkumál

Jóhann Páll Jóhannsson, umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra, hefur sagt möguleikann á nokkurra ára seinkun á gangsetningu virkjunarinnar vegna dómsins vera óþolanlega niðurstöðu.

Ríkisstjórn Kristrúnar leggur mikla áherslu á að komast áfram í orkumálum á kjörtímabilinu. „Að við sjáum aukna orkuöflun, betri nýtni og betra flutningskerfi. Við munum vinna hörðum höndum að því,“ segir hún.

Hvað aðkomu þingsins varðar segir hún að rætt hafi verið að mögulega verði brugðist við með einhverjum hætti á vorþinginu, þó sá tímapunktur sé ekki kominn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert