Almenningur getur fyllt upp í holur

Eftir leysingar undanfarið hafa hættulegar holur víða komið í ljós.
Eftir leysingar undanfarið hafa hættulegar holur víða komið í ljós. Morgunblaðið/Árni Sæberg

„Það er engin þörf á því að almenningur fari í holufyllingar á vegunum. Þetta er stórt verkefni en við sjáum um okkar vegi,“ segir G. Pétur Matthíasson upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar.

Auglýsing frá Malbikunarstöðinni Höfða í Morgunblaðinu í vikunni hefur vakið athygli margra. Þar var auglýst viðgerðarefni fyrir holur í malbiki, tilbúið til notkunar. Umrætt efni er sagt vera hið mest notaða fyrir holur í malbiki á Norðurlöndunum, einfalt í notkun, endingargott og umhverfisvænt.

Vegagerðin stærsti kúnninn

Birkir Hrafn Jóakimsson, framkvæmdastjóri Malbikunarstöðvarinnar Höfða, segir að hver sem er geti keypt viðgerðarefnið og notað það. Ekki sé vanþörf á eins og ástandið sé víða þessa dagana. Morgunblaðið hefur greint frá því að nokkuð hafi borið á tilkynningum til lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu að undanförnu vegna skemmda á malbiki eftir miklar leysingar.

Birkir tekur þó undir með G. Pétri og telur ekki rétt að almenningur fari að fylla upp í holur á vegum úti. „Nei, ég held að lögreglan yrði ekki ánægð ef vegfarendur færu að stöðva umferð til að fylla upp í holur. Enda er Vegagerðin stærsti kúnninn okkar,“ segir hann. Efnið geti hins vegar nýst vel fyrir fyrirtæki, húsfélög og einstaklinga; á bílaplönum, innkeyrslum og einkalóðum.

Efnið er selt í 22 kílóa pokum og kostar hver þeirra 6.500 krónur að sögn Birkis. Innan tíðar verður einnig hægt að fá efnið í fötum sem hægt er að loka aftur.

Lesa má meira um málið í Morgunblaðinu í dag

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert