Framkvæmdir við Fossvogsbrú eru hafnar en fyrsta skóflustungan var tekin í dag. Brúin er fyrsta framkvæmdin í borgarlínuverkefninu.
Eyjólfur Ármannsson, samgöngu- og sveitastjórnarráðherra, Bergþóra Þorkelsdóttir vegamálastjóri, Davíð Þorláksson, framkvæmdastjóri Betri samgangna, Einar Þorsteinsson borgarstjóri og Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, voru mætt á athöfnina í dag og tóku öll skóflustungur.
Í ræðu sagði vegamálastjóri að um stóran dag væri að ræða. Aðdragandinn að framkvæmdinni hafi verið langur en fyrstu hugmyndir um brúna hefðu verið settar á blað árið 2013.
„Það er viðeigandi að fyrsta verkefnið í borgarlínuverkefninu sé brú af því að hún er kannski svona ákveðið tákn um þessa brú sem að hefur verið byggð á milli sveitarfélaganna á höfuðborgarsvæðinu um sameiginlega samgöngustefnu,“ sagði Einar Þorsteinsson borgarstjóri í sinni ræðu.
Fossvogsbrúin er hluti af Samgöngusáttmálanum og er fyrsta stóra framkvæmdin í borgarlínuverkefninu. Brúin tengir saman vesturhluta Kópavogs og Reykjavík. Áætluð verklok eru 1. nóvember 2026 fyrir þennan hluta verksins en gert er ráð fyrir að Fossvogsbrú verði tilbúin um mitt ár 2028