Fyrirtaka í máli Sigurðar Fannars Þórissonar, sem ákærður er fyrir að hafa banað dóttur sinni, Kolfinnu Eldeyju, við Krýsuvíkurveg í september, fer fram í Héraðsdómi Reykjaness í dag og er þinghald lokað.
Samkvæmt upplýsingum frá Héraðsdómi Reykjaness verður þinghald lokað í dag en ekki liggur ljóst fyrir hvort þinghald verður lokað við aðalmeðferð málsins.
Karl Ingi Vilbergsson, saksóknari hjá embætti héraðssaksóknara, segir við mbl.is að við fyrirtöku málsins í dag verði lögð fram gögn, meðal annars geðheilbrigðismat og frekari DNA rannsóknir.
Sigurður Fannar mætti ekki í Héraðsdóm Reykjanes þegar málið var þingfest í síðasta mánuði en hann hefur setið í gæsluvarðhaldi frá því í desember.
Þjóðin var slegin óhug þegar lögreglan tilkynnti að lík á stúlku á grunnskólaaldri hefði fundist skammt frá Krýsuvíkurvegi. Síðar greindi lögreglan frá því að faðir stúlkunnar, sem var tíu ára gömul, væri grunaður um að hafa banað henni. Hann hafði haft samband við lögregluna og vísað á líkið.
Ingibjörg Dagný Ingadóttir, móðir Kolfinnu, greindi frá því í færslu á Facebook í vikunni að Sigurður Fannar hafi fengið höfnun frá áfallateymi Landspítalans síðasta vor eftir að hafa leitað þangað með aðstoð barnsmóður sinnar vegna andlegra veikinda. Þar lýsti hún hvernig kefið hafði brugðist Sigurði þegar hann þurfti á hjálp að halda.