Með fíkniefni og umtalsvert magn fjármuna

Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld …
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu hafði í nógu að snúast í gærkvöld og í nótt. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Lögregla hafði hendur í hári manns sem er grunaður um sölu og dreifingu fíkniefna. Hann reyndi að hlaupa frá lögreglu en laganna verðir náðu að handsama hann skömmu síðar.

Maðurinn var með fíkniefni meðferðis ásamt umtalsverðu magni fjármuna. Hann var vistaður í fangaklefa í þágu rannsóknar málsins.

Þetta kemur fram í dagbók lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu vegna verkefna frá klukkan 17 í gær til 5 í morgun. Alls eru 45 mál bókuð í kerfum lögreglu á tímabilinu og gista þrír í fangageymslu lögreglu.

Fjórir ökumenn voru stöðvaðir í akstri grunaðir um akstur undir áhrifum ávana- og fíkniefna eða áfengis. Þeir voru allir lausir eftir aðgerðir lögreglu en sumir þeirra voru einnig grunaðir um akstur án ökuréttinda og/eða vörslu fíkniefna og fleira.

Þrír ökumenn voru sektaðir fyrir of hraðan akstur en sá sem ók hraðast var á 146 km/klst. þar sem hámarkshraði er 80 km/klst.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert