„Þessi óvissa sem upp er komin er algerlega óþolandi og ólíðandi fyrir okkar samfélag og þessa kyrrstöðu verður að rjúfa strax,“ segir Sigurður Hannesson, framkvæmdastjóri Samtaka iðnaðarins, í samtali við Morgunblaðið.
Leitað var álits hans á dómi Héraðsdóms Reykjavíkur sem féll sl. miðvikudag, þar sem virkjunarleyfi Landsvirkjunar fyrir Hvammsvirkjun í Þjórsá var úr gildi fellt.
„Ef þessi niðurstaða stendur þarf væntanlega að breyta lögunum því við hér á Íslandi getum ekki búið við þá stöðu að ekki sé hægt að reisa vatnsaflsvirkjanir. Það hefur verið skortur á raforku í nokkur ár og því miður eru enn nokkur ár í að ný raforka komi inn á kerfið, þannig að við erum í virkilega viðkvæmri stöðu núna sem birtist okkur m.a. í miklum verðhækkunum á raforku síðustu misserin, eins og fjallað hefur verið um,“ segir Sigurður.
„Það er útlit fyrir að þessi niðurstaða geti frestað framkvæmdum um eitt til tvö ár sem þýðir að við verðum í þessari viðkvæmu stöðu enn lengur. Það er nokkuð sem við sem samfélag getum ekki búið við,“ segir hann.
Spurður um kostnaðinn sem af þessu geti hlotist segir Sigurður erfitt að segja til um það, en nefnir að fyrir ári hafi Samtök iðnaðarins lagt mat á fjártjón vegna skerðingar á raforku til stórnotenda, en samkvæmt því nam tjón vegna tapaðra útflutningstekna 14-17 milljörðum á ári.
„Ef þetta er stærðargráðan eða jafnvel hærri tölur á hverju ári er ljóst að það munar um hvert ár,“ segir hann og bendir á að þá sé ótalið tjón almennings vegna hækkaðs raforkuverðs vegna skorts á framboði.
„Það eru mjög margir milljarðar sem af þessu hljótast,“ segir Sigurður og bendir á að ríkisstjórnin hljóti að íhuga mjög alvarlega að breyta lögum án tafar.
„Hugsanlega verður dómnum snúið á æðra dómstigi, en þessi óvissa er óviðunandi fyrir íslenskt samfélag,“ segir hann.
Sigurður segir að Hvammsvirkjun sé búin að vera í undirbúningi í aldarfjórðung eða ríflega það, undirbúningur hafi hafist í lok síðustu aldar.
„Það er alveg ljóst að búið er að velta við hverjum einasta steini í þessu máli. Okkur sem samfélagi hefur tekist mjög vel að finna jafnvægi á milli nýtingar auðlinda og náttúruverndar og ég veit að svo verður áfram. Það er mat manna sem skoðað hafa þessi mál vel undanfarin ár og áratugi að þessi virkjunarkostur er einn sá hagkvæmasti sem völ er á,“ segir Sigurður Hannesson.