„Þetta verður gerbylting“

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ásamt Eyjólfi …
Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs og Einar Þorsteinsson borgarstjóri ásamt Eyjólfi Ármannssyni, samgöngu- og sveitarstjórnarráðherra við athöfnina í dag. mbl.is/Karítas

Einar Þorsteinsson borgarstjóri segir Fossvogsbrúna vera gerbyltingu fyrir umferð á milli Reykjavíkur og Kópavogs og að hún muni létta á umferðarálagi á Hafnarfjarðarvegi og Kringlumýrarbraut. Gert er ráð fyrir að 10.000 manns muni notast við brúna daglega þegar hún verður tekin í notkun. 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir það mikið hagsmunamál fyrir höfuðborgarsvæðið að brúin sé að verða að veruleika.

Framkvæmdir hófust formlega á Fossvogsbrúnni í hádeginu. Bygging brúarinnar er fyrsta framkvæmdin í borgarlínuverkefninu.

Fyrsti stóri áfanginn

„Það er bara frábært að framkvæmdir séu hafnar. Þetta er fyrsti stóri áfanginn sem við sjáum fara af stað í borgarlínuverkefninu sem er hluti af stóra samgöngusáttmálanum, segir Einar Þorsteinsson, borgarstjóri Reykjavíkur.

Hann segir að mikill framgangur hafi orðið á lagningu stofnvega og hjólastíga sem og ýmsum öðrum aðgerðum og undirbúningi fyrir borgarlínuna. 

Einar segir að brúnni muni fylgja gerbylting.
Einar segir að brúnni muni fylgja gerbylting. mbl.is/Karítas

Gera ráð fyrir 10.000 manns á dag

„En nú erum við að sjá þetta fara af stað. Brúin tengir hérna þessi tvö sveitarfélög saman.“

Segir Einar að áform séu um að 10.000 manns muni nota brúna þegar hún verður tekin í notkun.

„Þannig að þetta verður gerbylting og léttir álaginu af umferðinni á Hafnarfjarðarveginum og á Kringlumýrarbrautinni.“

Besta leiðin til þess að stytta ferðatíma

„Vonandi gengur þetta vel. Það hefur tekið langan tíma að undirbúa þetta verkefni og við sjáum það í greiningunum á því hvaða verkefni skila okkur mestum árangri í því að bæta flæði umferðar,“ segir borgarstjórinn og heldur áfram:

„Þá eru það þau verkefni sem snúa að almenningssamgöngunum, að koma fleirum inn í strætó, borgarlínu, sem er skilvirk og veitir góða þjónustu með aukinni tíðni og betri aðstöðu og það er besta leiðin til þess að stytta ferðatímann. Fyrir alla, líka þá sem keyra á bílunum.“

Segir Einar að það sé því mikilvægt að áfanginn sé að hefjast núna.

„Af því að hann gagnast öllum. Bæði þeim sem taka strætó og þeim sem keyra sína fjölskyldubíla.“

Kátt var yfir fólki við athöfnina í dag.
Kátt var yfir fólki við athöfnina í dag. mbl.is/Karítas

Gríðarlega stór áfangi 

Ásdís Kristjánsdóttir, bæjarstjóri Kópavogs, segir tilfinninguna fyrir verkefninu vera mjög góða og er ánægð með að framkvæmdir á brúnni séu loksins hafnar.

Hún segir brúna vera gífurlega búbót fyrir íbúa Kópavogs og í raun alla höfuðborgarbúa.

„Hér erum við að byggja brú og tengja Kópavog og Reykjavík saman og áform eru að gera ráð fyrir því að allt að 10.000 manns muni daglega ferðast um þessa brú, hvort sem þeir eru gangandi, hjólandi eða með borgarlínunni. Þannig þetta er auðvitað gríðarlega stór áfangi og frábært að við séum komin á þennan stað.“

Ásdís segir það mikið hagsmunamál fyrir höfuðborgarsvæðið að brúin sé …
Ásdís segir það mikið hagsmunamál fyrir höfuðborgarsvæðið að brúin sé að verða að veruleika. mbl.is/Karítas

Búin að bíða í fjöldamörg ár

Hún segir verkefnið hafa verið í rúmlega áratug í skipulagi, bæði í svæðisskipulagi höfuðborgarsvæðisins og í skipulagi hjá Kópavogsbæ.

„Þannig við erum auðvitað búin að vera að bíða eftir þessu í fjöldamörg ár og nú loksins erum við komin á þennan stað.“

Mikið hagsmunamál fyrir höfuðborgarsvæðið

Varðandi næstu skref segir Ásdís að næst taki við að klára deiliskipulagsvinnu sem snúi að legu borgarlínunnar sem muni liggja um Kársnesið.

„Við vorum með góðan kynningarfund núna í vikunni sem var mjög fjölmennur og vel sóttur þar sem við vorum að kynna svona fyrstu drög að rammahlutanum. Þannig nú er bara að klára skipulagsvinnuna þannig að við getum haldið áfram með verkefnið.“

„Þetta er stór áfangi og mikið hagsmunamál fyrir allt höfuðborgarsvæðið að við séum komin á þennan stað að brúin sé að verða að veruleika,“ bætir bæjarstjórinn við að lokum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert