Alþingi verður sett 4. febrúar, eða eftir um tvær og hálfa viku. Kristrún Frostadóttir lagði erindi þess efnis fram á fundi ríkisstjórnarinnar í dag. Þá verða rúmlega átta vikur liðnar frá kosningum sem fóru fram 30. nóvember.
Undirbúningsnefnd fyrir rannsókn kosninga kom saman í dag og fundaði með landskjörstjórn, en farið er yfir umsögn landskjörstjórnar sem birt var fyrr í vikunni. Þar hafði meðal annars komið fram að nokkrir annmarkar hefðu verið á framkvæmd kosninganna, sér í lagi því er viðkemur framkvæmd utankjörfundaratkvæðagreiðslu, bæði hér heima og erlendis.
Í umsögninni kemur m.a. fram að þar sem umsýsla við utankjörfundaratkvæðagreiðslu sé umfangsmikil, framkvæmdin viðkvæm fyrir utanaðkomandi þáttum, sérstaklega hvað varði flutning eða sendingar atkvæðisbréfa til meðferðar og eftir atvikum til talningar, sé hætta á að atkvæði misfarist eða verði ekki tekin til greina af ástæðum sem ekki eru á ábyrgð kjósandans sjálfs.
Greint hefur verið frá því að 25 atkvæði hafi ekki skilað sér til talningar í Suðvesturkjördæmi sem send höfðu verið á sveitarstjórnarskrifstofu Kópavogsbæjar. Þá barst einnig kassi til yfirkjörstjórnar Norðausturkjördæmis ellefu dögum eftir kosningar með utankjörfundaratkvæðum frá Reykjavík. Voru þessi atkvæði ekki talin þar sem þau bárust of seint.