„Við skoðuðum marga möguleika til að halda framleiðslunni áfram hér á landi en fundum enga aðra samkeppnishæfa lausn,“ segir Arnar Þórisson forstjóri Líflands. Hveitimyllu Kornax í Korngörðum verður lokað á næstunni. Sú var eina hveitimylla landsins og því verður allt hveiti á Íslandi innflutt héðan í frá.
Arnar segir í samtali að fyrirtækið hafi leigt húsnæði undir myllu Kornax í Korngörðum. Þegar Faxaflóahafnir hafi ekki viljað framlengja leigusamning við fyrirtækið hafi verið kannaðir möguleikar á að byggja nýja verksmiðju á athafnasvæði félagsins á Grundartanga. Þá hafi komið í ljós að ekki fengist starfsleyfi fyrir matvælaframleiðslu á þynningarsvæði stóriðjufyrirtækjanna sem þar starfa.
„Við leituðum til matvælaráðuneytisins um undanþágu á þessari reglu því við töldum ljóst að framleiðsla í lokuðu ferli væri óháð þessum umhverfisþáttum. Raunar er okkur sagt að von sé á breytingum á EES-reglunum um þessi þynningarsvæði en við getum ekki beðið eftir því. Niðurstaðan var að við yrðum að loka þessari framleiðslu og gera samning við framleiðanda í Danmörku.“
Hann segir enn fremur aðspurður að þessar breytingar muni ekki leiða til hærra vöruverðs. „Nei, við höfum náð að gera fína samninga og náum að halda sama vöruverði. Sem er gott enda hefur hveiti lækkað að undanförnu hér á landi frekar en hitt.“
Nánar má lesa um málið í Morgunblaðinu í dag, laugardag.