Á Eyjatónleikunum Töfrar í Herjólfsdal, sem fram fara laugardaginn 25. janúar, fær Þjóðhátíð meira vægi en oft áður. Bjarni Ólafur Guðmundsson, Daddi, sem hefur veg og vanda af tónleikunum, ásamt eiginkonu sinni Guðrúnu Mary Ólafsdóttur, segir hana hafa getið af sér risastór popplög á undanförnum árum og fólk bíði eftir nýju lagi á hverju sumri.
„Það þýðir að það er orðið lúxusvandamál að velja lögin en við viljum auðvitað líka halda í gömlu lögin hans Oddgeirs Kristjánssonar. Við munum flytja alla vega 14 þjóðhátíðarlög núna,” segir Daddi.
Bjartmari Guðlaugssyni verður einnig gert hátt undir höfði að þessu sinni; hann kemur fram sjálfur og aðrir munu líka flytja lög hans. „Hann fær gott ljós á sig enda snillingur,“ segir Daddi.
Klara Elías verður líka í stóru hlutverki en hún hefur komið að tveimur þjóðhátíðarlögum, auk þess sem hún flutti lagið Heim í beinu streymi í heimsfaraldrinum 2020 sem Daddi segir að sé ígildi þjóðhátíðarlags.
Af öðrum söngvurum má nefna Siggu Beinteins og sjálfan brekkusöngvarann, Magnús Kjartan. Til stóð að Magni yrði með en hann varð að segja sig frá verkefninu vegna veikinda. Í hans stað kemur enginn aukvisi, Matti Matt. „Hann hefur verið með okkur áður og er algjörlega frábær söngvari.“
Þarna verða líka, eins og alltaf, söngvarar úr grasrótinni í Eyjum; hjónin Sæþór Vídó og Kristín Halldórs, ELÓ og Guðný Emilíana Tórshamar, ásamt stórhljómsveit undir stjórn Þóris Úlfarssonar.
„Þetta verður rosalega fjölbreytt og ég lofa frábærri skemmtun fyrir alla sem hafa gaman af góðum partíum,“ segir Daddi sem kynna mun tónleikana ásamt frænku sinni Elvu Ósk Ólafsdóttur eins og þau gerðu á fyrstu tónleikunum 2011.
Spurður hvort tónleikarnir fari fram að ári svarar Daddi:
„Nei, það er ólíklegt. Eins og staðan er núna reiknum við með að taka pásu næstu tvö árin en koma aftur þegar 55 ár verða liðin frá upphafi eldgossins á Heimaey, árið 2028.“
Nánar er fjallað um Eyjatónleikana í Sunnudagsblaði Morgunblaðsins.