Vegir lokaðir og margir á óvissustigi

Fjarðarheiði var lokuð fyrir umferð í nótt. Mynd úr safni.
Fjarðarheiði var lokuð fyrir umferð í nótt. Mynd úr safni. Ljósmynd/Aðsend

Nokkrir vegir á norðaustan - og austanverðu landinu eru lokaðir og þá hafa vegir verið settir á óvissustig vegna veðurs en víða er hvassviðri og snjókoma.

Á vef Vegagerðarinnar, umferðin.is, kemur fram að ófært sé á flestum leiðum á Austfjörðum. Til að mynda er ófært um Öxi og Breiðdalsheiði og vegurinn um Fjarðarheiði er lokaður og verður það fram yfir hádegi með tilliti til veðurspár. Þá eru vegirnir um Vopnafjarðarheiði, Möðrudalsöræfi og Mývatnsöræfi lokaðir og er beðið með mokstur.

Ófært er á Siglufjarðarheiði og vegirnir um Klettháls, Steingrímsfjarðarheiði og Þröskulda eru á óvissustigi og gætu lokað með stuttum fyrirvara. Þá er ófært um Dynjandisheiði.

Á Vesturlandi hafa vegirnir um Fróðárheiði, Svínadal, Bröttubrekku, Holtavörðuheiði verið settir á óvissustig klukkan 12 og gætu lokast með stuttum fyrirvara.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert