Stefán E. Stefánsson
Sjálfstæðisflokkurinn er orðinn of mikill kerfisflokkur og endurnýja þarf samtalið við þjóðina. Þetta er mat Elliða Vignissonar. Segir hann vanda Framsóknarflokksins sambærilegan.
Hann er gestur nýjasta þáttar Spursmála ásamt Magneu Gná Jóhannsdóttur, borgarfulltrúa Framsóknarflokksins.
Segir Elliði að Sjálfstæðisflokkurinn hafi misst tengslin við kjósendur og sé orðinn of mikill kerfisflokkur.
Vill hann ekki kenna fráfarandi formanni flokksins um það hvernig komið sé, hann er hins vegar á þeirri skoðun að nú sé tækifæri til þess að snúa stöðunni við.
Elliði hefur sjálfur verið orðaður við mögulegt formannsframboð í Sjálfstæðisflokknum en í viðtalinu útilokar hann þann möguleika. Segir hann nauðsynlegt að formaður flokksins sé einnig alþingismaður.
Enn liggur ekki fyrir hverjir munu etja kappi um formannsstólinn á landsfundi Sjálfstæðisflokksins sem fram fer í lok febrúar en þar hafa helst verið nefndir alþingismennirnir Guðlaugur Þór Þórðarson, sem bauð sig fram til formanns árið 2022 en laut í lægra haldi fyrir sitjandi formanni, Áslaug Arna Sigurbjörnsdóttir, Guðrún Hafsteinsdóttir og Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, varaformaður flokksins.
Þau hafa öll varist frétta um það hvort þau hyggist bjóða sig fram til formannsembættisins.
Viðtalið við Elliða og Magneu má sjá og heyra í heild sinni í spilaranum hér að neðan.