Hvassri austan- og norðaustanátt er spáð í dag. Gefnar hafa verið út viðvaranir vegna veðurs. Fólk er hvatt til að sýna aðgát og ferðalöngum bent á að fylgjast með fréttum af veðri og færð.
„Nokkuð hvöss austan- og norðaustanátt í dag, jafnvel stormur eða rok syðst. Slydda eða snjókoma á austanverðu landinu, talsverð eða mikil á Austfjörðum seinnipartinn, en mun minni úrkoma vestantil,“ segir í hugleiðingum veðurfræðings á Veðurstofu Íslands.
Á morgun verður vindur norðlægari.
„Lægð fyrir sunnan land fer hægt norðaustur og síðar austur, en hæð er yfir Norðaustur-Grænlandi. Vindur verður norðlægari á morgun, víða allhvass eða hvass. Snjókoma, einkum norðaustanlands, en að mestu þurrt á Suður- og Vesturlandi.“
Á þriðjudag lægir. Þá er spáð björtu og köldu veðri seinnipartinn.