Rífur upp alls konar minningar

Guðrún með öll sex barnabörnin. Þrátt fyrir að hafa fengið …
Guðrún með öll sex barnabörnin. Þrátt fyrir að hafa fengið snjóflóð yfir sig þar sem hún lá í rúminu í mars 2023 sýnir hún ástandinu mikið jafnaðargeð. Ljósmynd/Aðsend

Að morgni mánudags 27. mars 2023 vaknaði Guðrún Sólveig Sigurðardóttir upp við að snjóflóð braust inn um svefnherbergisglugga á heimili hennar að Starmýri í Neskaupstað.

Svefnherbergisglugginn sprakk við höggbylgjuna sem fylgdi flóðinu og snjórinn kastaðist yfir hana og út um allt svefnherbergið.

Guðrúnu hefur nú verið gert að rýma heimili sitt vegna snjóflóðahættu í Neskaupstað. Í samtali við mbl.is segir hún ástandið í dag rífa upp alls konar minningar.

Býr enn í húsinu

Veður­stofa Íslands hef­ur lýst yfir óvissu­stigi á Aust­fjörðum vegna snjóflóðahættu sem tók gildi í há­deginu í dag. Þá tóku rým­ing­ar gildi á íbúðarsvæði og at­vinnu­hús­næði í Nes­kaupstað og á Seyðis­firði klukk­an 18.

Guðrúnhefur í Sparisjóði Austurlands síðan 1986. Hún á þrjár uppkomnar stelpur en býr ein á sínu heimili en er með hund.

Eftir snjóflóðið í mars fyrir tveimur árum gerði hún upp íbúðina sína. Nú hefur henni enn og aftur verið gert að yfirgefa heimili sitt.

„Ég er komin til dóttur minnar og fjölskyldu hennar sem búa á öruggu svæði,“ segir Guðrún. Hún segist hafa reiknað með að þurfa að rýma miðað við þá veðurspá sem var í kortunum og ekki er að heyra annað en að hún sýni ástandinu öllu mikið jafnaðargeð.

Fimm íbúðir eru í fjölbýlishúsinu auk íbúðar Guðrúnar og segir hún búið í þeim öllum. „Fólk er bara að opna heimili sín fyrir þá sem vantar samastað. Maður finnur samhuginn eins og skot,“ segir Guðrún sem sjálf hefur fengið símtöl frá fólki.

Svona var umhorfs í íbúð Guðrúnar eftir að flóðið ruddist …
Svona var umhorfs í íbúð Guðrúnar eftir að flóðið ruddist inn á heimilið í mars 2023. Ljósmynd/Aðsend

Fleiri sem ákveða að rýma

Björgunarsveitir gengu í hús og létu fólk vita af rýmingunni í dag, sem tekur til 40 heimila í Neskaupstað og á Seyðisfirði, eða um 140 íbúa.

Guðrún segir alltaf einhverja fleiri ákveða að rýma og segir meðal annars frá yngri dóttur sinni sem býr á mörkum rýmingarsvæðis sem ákvað að rýma enda með ung börn.

Fær hnút í magann

Hún segir gott að búa í Neskaupstað en við svona aðstæður komi ólga í hana. „Það er björgunarsveitarfólk á ferðinni og björgunarsveitarbílar. Maður fær pínu hnút í magann og „flashback“ aftur í tímann.“

Segir hún ástand sem þetta rífa upp alls konar minningar og minnist á í því sambandi að nýlega hafi verið 50 ár frá mannskæðum flóðum í Neskaupstað 1974. Nú sé þó allt eftirlit miklu betra. t.a.m. hafi verið unnið aðeins í varnargörðum.

„Þeir byrjuðu í sumar eða haust að vinna að þeim og það er strax kominn smá garður þarna fyrir ofan. Það er bara mjög jákvætt en það er langt frá því að verða fullklárað svo það er ekki öryggi í því enn þá en ef allir eru komnir í öruggt skjól þá getur maður bara verið nokkuð slakur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert