Hatursfull umræða og fordæming þeirra sem hafa brotið kynferðislega gegn börnum er skaðleg og getur meðal annars leitt til þess að þolendur segja síður frá og komið í veg fyrir að þeir sem sem finna fyrir annarlegum hvötum í garð barna leiti sér aðstoðar.
Meðferðarúrræði gjalda fyrir einnig fyrir þess háttar útskúfun.
Þetta segir Svala Ísfeld Ólafsdóttir, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík. Hún varði í desember doktorsritgerð sína Vernd barna gegn kynferðisofbeldi; réttarþróun, dómar og samfélagsleg viðhorf, þar sem hún rýnir í dóma Hæstaréttar frá stofnun dómstólsins árið 1920 til ársins 2015, og skoðar hvaða þættir hafa haft mest áhrif á þróun löggjafarinnar.
Í ritgerðinni er bent á að þeir sem brjóti gegn börnum fái jafnan litla samúð. Þeim sé gjarnan lýst sem skrímslum í mannsmynd og fordæming á athæfi þeirra risti djúpt. Þeir séu brennimerktir barnaníðingar og valdi miklum ótta í samfélaginu.
„Sú hatursfulla umræða sem hefur átt sér stað og er viðvarandi skaðar á svo margvíslegan hátt í þessum málaflokki. Með tilliti til þess að margir þolendur eru beittir kynferðisofbeldi af sínum nánustu getur þessi orðræða leitt til þess að ýta brotaþolunum enn frekar inn í þögnina. Við getum heldur ekki búist við að fólk sem finnur fyrir annarlegum hvötum eða hefur áhyggjur af því hvert hvatir þeirra eru að leiða það, stígi fram til að leita sér hjálpar, ef fordæmingin er svona ljóslifandi,“ segir Svala í samtali við mbl.is.
Útskúfun dragi einnig úr möguleikum á því að þeir,sem hafa brotið af sér og tekið út sína refsingu, nái að fóta sig í samfélaginu á ný.
„Maður skilur þessa reiði en hatursfull umræða er ekki til gagns og vinnur gegn umbótum í þessum málaflokki,“ segir Svala jafnframt.
Á síðustu árum hefur sérhæfðum úrræðum verið komið á fót sem ætluð eru gerendum kynferðisbrota í þeim tilgangi að draga úr líkum á að þeir brjóti af sér aftur. Að mati Svölu hafa úrræðin þjónað tilgangi sínum, en hætt sé við því að úrræðin gjaldi fyrir útskúfun þeirra sem brotið hafa af sér.
Annars vegar er að um að ræða úrræði fyrir fullorðna sem nefnist Taktu skrefið og var komið á fót árið 2022 og hins vegar sálfræðiþjónusta fyrir börn vegna óviðeigandi kynhegðunar sem komið var á fót árið 2009.
Markmiðið með Taktu skrefið er að að veita fullorðnum einstaklingum, sem hafa beitt kynferðisofbeldi, aðstoð og draga úr líkum á að þeir brjóti af sér aftur. Þá geta þeir, sem hafa áhyggjur af kynferðislegri hegðun sinni, einnig nýtt sér þjónustuna. Alls 123 einstaklingar höfðu þegið þar meðferð frá árinu 2022 og fram í október 2024. Þá hafa dómstólar nýtt úrræðið og gert brotamönnum að gangast undir meðferð á skilorðstíma.
Í 55 prósent tilfella var um að ræða aðstoð vegna kynferðislegrar hegðunar og hugsana sem tengjast börnum og eru karlmenn í yfirgnæfandi meirihluta, eða 96 prósent þeirra sem hafa fengið þjónustu.
Sálfræðiþjónusta vegna óviðeigandi kynhegðunar (SÓK) er veitt á á vegum barnaverndaryfirvalda og sniðin að ungum gerendum sem sýna af sér óviðeigandi eða skaðlega kynhegðun. Svala vísar í ritgerð sinni til orða Braga Guðbrandssonar, fyrrverandi forstjóra Barnaverndarstofu, um að rúmlega helmingur kynferðisbrotamanna hefji feril sinn fyrir 15 ára aldur og að þriðjungur gerenda sé undir 18 ára.
Markmið meðferðarinnar er að veita börnum aðstoð til að draga úr skaðsemi hegðunar og draga úr líkum á að hún endurtaki sig. Alls 267 börn hafa fengið þjónustu sálfræðinga hjá teyminu á síðustu 15 árum. Langflest börnin eru á aldrinum 12 til 18 ára, en börn niður í 5 ára hafa fengið þjónustu. Drengir eru í yfirgnæfandi meirihluta. Bæði úrræðin eru styrkt af stjórnvöldum
„Mér finnst yfirvöld hafa vilja til að leggja þessu málefni lið og auka meðferðarúrræði bæði fyrir þolendur og gerendur. Þetta er liður í aðgerðum til þess að vinna gegn þessum brotum og aðstoða þá sem hafa framið afbrot af þessu tagi og orðið fyrir þeim. Þannig mér finnst hafa orðið mikil vitundarvakning á þessu sviði,“ segir Svala.
„Samanlagt hafa 390 einstaklingar sótt meðferð og þjónustu til þessara tveggja úrræða. Má ætla að það hafi borið þann árangur að draga úr hættunni á endurteknum kynferðisbrotum hjá þeim sem hafa framið slík brot og dregið úr hættunni á því að þeir fremji brot sem ekki hafa gert það en glíma við skaðlega eða óviðeigandi kynferðishegðun eða kynferðislegar hugsanir.“
Jákvæðar breytingar hafi í raun átt sér stað á síðustu árum og áratugum hvað varðar allan skilning á alvarleika kynferðisbrota bæði í samfélaginu og innan réttarvörslukerfisins.
Þar hafi breytt viðhorf, fráhvarf frá úreltum viðhorfum og kvenfrelsis- og kvenréttindabarátta haft sitt að segja.
Mikilvægustu breytingarnar sem gerðar voru á ákvæðum hegningarlaga um kynferðisbrot á þeim tíma sem rannsókn Svölu tekur til er traustari og þéttari vernd barna gegn kynferðisofbeldi, kynferðislegri misnotkun eða kynferðislegri áreitni af hálfu þeirra sem eldri eru.
„Mikilvægur liður í því var að hækka kynferðislegan lágmarksaldur úr 14 árum í 15 ár, afnema fyrningarfrest vegna alvarlegustu brotanna og tryggja að fyrningarfrestur vegna annarra kynferðisbrota byrji aldrei að líða fyrr en barn hefur náð lögræðisaldri,“ segir í ritgerðinni.
Með þessum lagabreytingum árið 2007 hafi verið mörkuð ákveðin tímamót.
„Í kringum þann tíma þegar löggjafinn stígur það skref að afnema fyrningarfrest vegna alvarlegustu kynferðisbrotanna gegn börnum, þá er það í kjölfar þess að vísindasamfélagið og rannsóknir hafa sýnt fram á hversu djúpstæðar og langvarandi afleiðingarnar geta verið. Með því að stíga þetta skref gefur löggjafinn þau skilaboð út í samfélagið hversu alvarlegum augum beri að líta þessi brot.
Á sama tíma er þeim skipað á bekk með nauðgun, sem fram að því hafði verið álitið alvarlegasta kynferðisbrotið og refsimörk fyrir kynferðismök við barn undir 15 ára aldri þyngd til samræmis við nauðgun, tiltekið lágmarksfangelsi og hámarksfangelsi 16 ár. Kynferðismök við barn varð þar með annað af tveimur alvarlegustu kynferðisbrotunum,“ segir Svala.
„Þá höfðu komið út bækur, sem höfðu að geyma frásagnir brotaþola af kynferðisofbeldi í æsku og hafði t.d. bókin „Myndin af pabba. Saga Thelmu“, sem kom út fyrir jólin 2005, mikla þýðingu í þessu sambandi. Hún opnaði augu margra fyrir alvarleika brotanna,“ bætir hún við.
Svala segir að vitundarvakning hafi orðið um áfallamiðaða nálgun í þjóðfélaginu öllu. Barnahús hafi breytt miklu fyrir þennan málaflokk. Þar starfi fólk með sérkunnáttu í að umgangast og yfirheyra börn af nærgætni og vandvirkni sem auki líkur á að framburðir þeirra standi fyrir dómi.
Þá segir hún mjög athyglisvert að sjá hversu þýðingarmikið hlutverk neyðarmóttaka vegna nauðgunar hefur haft í málum vegna kynferðisbrota gegn börnum. Neyðarmóttakan gegni gríðarlegu miklu hlutverki þegar kemur að fyrstu hjálp og aðhlynningu þolenda og eins við að tryggja og varðveita sönnunargögn ef til þess kemur að mál er kært til lögreglu.
Samkvæmt þeim upplýsingum sem hún hafi fengið hafi tæplega fjórðungur skjólstæðinga neyðarmóttökunnar frá upphafi verið á barnsaldri, þ.e. 17 ára eða yngri.