Segja hesta skilda eftir í dauðagildru

Dýraverndarsamband Íslands fer fram á að hrossunum verði bjargað án …
Dýraverndarsamband Íslands fer fram á að hrossunum verði bjargað án tafar. Bendir sambandið á að bæta muni í snjókomu í nótt en enn sé hægt að koma þeim í öruggt skjól. Myndin tengist fréttinni ekki beint. mbl.is/RAX

Dýraverndarsamband Íslands fullyrðir að hross hafi verið skilin eftir „í dauðagildru“ á rýmingarsvæði í Neskaupstað.

Í tilkynningu frá sambandinu segir að þrátt fyrir að hestaeigendur hafi fengið rúman tíma í dag til að rýma hesthúsin sem séu á snjóflóðahættusvæði, NE01, séu þar enn einhver hross höfð í dauðagildru.

Verði bjargað án tafar

Enn fremur segir að um sé að ræða óásættanlega framkomu við dýr sem hafi tilfinningar og sál og finni hættu oft mun betur og fyrr en mannfólkið.

Bendir dýraverndarsambandið á að samkvæmt lögum um velferð dýra beri eigendur ábyrgð á velferð og heilsu sinna dýra.

„Vitað er að það mun bæta í snjókomu í nótt. Enn er möguleiki á að koma hrossunum í öruggt skjól. Dýraverndarsamband Íslands fer fram á að hrossunum verði bjargað án tafar.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert