Engar forsendur fyrir því seinka undirbúningi

Héraðsdómur Reykjavíkur hef­ur ógilt leyf­is­veit­ingu sem Orku­stofn­un veitti Lands­virkj­un í …
Héraðsdómur Reykjavíkur hef­ur ógilt leyf­is­veit­ingu sem Orku­stofn­un veitti Lands­virkj­un í fyrra til þess að reisa raf­orku­verið Hvamms­virkj­un. Tölvumynd/Landsvirkjun

Engar forsendur eru fyrir því að hægja á eða seinka þeim undirbúningsframkvæmdum Hvammsvirkjunar sem þegar eru komnar af stað.

Þetta segja Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps, og Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings Ytra, í tilkynningu sem þeir sendu fjölmiðlum í kvöld. 

Héraðsdómur Reykjavíkur hef­ur ógilt leyf­is­veit­ingu sem Orku­stofn­un veitti Lands­virkj­un í fyrra til þess að reisa raf­orku­verið Hvamms­virkj­un. Þá ógilti dóm­ur­inn einnig heim­ild Um­hverf­is­stofn­un­ar til þess að breyta vatns­hlot­inu Þjórsá 1.

Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings Ytra (t.v.) og Haraldur Þór …
Eggert Valur Guðmundsson, oddviti Rangárþings Ytra (t.v.) og Haraldur Þór Jónsson, oddviti Skeiða- og Gnúpverjahrepps (t.h.). Samsett mynd

Engar framkvæmdir fyrirhugaðar í ár

Oddvitarnir benda á engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar í árfarvegi Þjórsár í ár og því séu engar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári sem hafi áhrif á vatnshlot Þjórsá.

„Skeiða- og Gnúpverjahreppur og Rangárþing Ytra veittu framkvæmdaleyfi til byggingar Hvammsvirkjunar í október 2024. Framkvæmdaleyfið er í fullu gildi. Í framkvæmdaleyfinu voru ítarleg skilyrði sett fyrir framkvæmdinni. Landsvirkjun mun þurfa að uppfylla fjölmörg skilyrði sem koma fram í greinagerð sem liggur til grundvallar framkvæmdaleyfinu áður en heimild er veitt til þess að hefja framkvæmdir í árfarvegi Þjórsár og breyta vatnshlotinu. Engar framkvæmdir eru fyrirhugaðar í árfarvegi Þjórsár á árinu 2025 og því engar framkvæmdir fyrirhugaðar á þessu ári sem hafa áhrif á vatnshlot Þjórsár,“ segir í tilkynningunni. 

Nægur tími fyrir ráðherra

Jó­hann Páll Jó­hanns­son um­hverf­is-, orku- og lofts­lags­ráðherra hyggst leggja fram frum­vörp skjótt eft­ir þing­setn­ingu til þess að greiða fyr­ir fram­kvæmd­um við Hvamms­virkj­un og ein­falda reglu­verk vegna orku­öfl­un­ar.

Haraldur Þór og Eggert Valur segja nægan tíma fyrir ráðherra til að leggja frumvörpin fram. Engar forsendur séu fyrir því að hægja á eða seinka undirbúningsframkvæmdum.

„Í ljósi þess að engar framkvæmdir séu fyrirhugaðar á árinu 2025 í árfarvegi Þjórsár er nægur tími fyrir umhverfis-, orku- og loftslagsráðherra að leggja fram boðaðar breytingar á lögum um vatnamál á komandi þingi og Alþingi að tryggja það að heimilt sé að byggja virkjanir sem eru samþykktar í nýtingarflokki rammaáætlunar. Engar forsendur eru fyrir því að hægja á eða seinka þeim undirbúningsframkvæmdum Hvammsvirkjunar sem eru komnar af stað og eiga að standa yfir á þessu ári.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert