Engar fregnir um snjóflóð fyrir austan

Unnið að snjómokstri í Neskaupstað. Mynd úr safni.
Unnið að snjómokstri í Neskaupstað. Mynd úr safni. mbl.is/Eggert Jóhannesson

Að sögn Tómasar Jóhannssonar, snjóflóðasérfræðings á Veðurstofu Íslands, hafa engar fregnir borist af snjóflóðum á Austfjörðum í nótt eða í morgun en í gær var lýst yfir óvissustigi vegna snjóflóðahættu á Austfjörðum og hættustigi í Neskaupstað og á Seyðisfirði.

Ákveðið var að rýma íbúðarsvæði og atvinnusvæði í Neskaupstað og á Seyðisfirði síðdegis í gær og eru íbúar á rýmingarsvæðunum í heild um 170.

„Veðurspáin hefur gengið eftir. Það er að draga úrkomunni fyrir austan eins og ráð var fyrir gert en svo kemur annað skot síðdegis. Þannig að þessu er ekki lokið fyrr en þá síðla kvölds eða eftir miðnætti í kvöld,“ segir Tómas við mbl.is.

Hann segir að það hafi snjóað mikið og þá sérstaklega á Seyðisfirði þar sem uppsöfnuð úrkoma sé komin yfir 100 millimetra frá því um hádegið í gær.

„Það er mikill snjór á Seyðisfirði og í Neskaupstað en við höfum engar fréttir haft af snjóflóðum sem ekki er við að búast því það er víða ófært og menn hafa ekki verið neitt á ferðinni,“ segir Tómas.

Tómas segir alveg viðbúið að einhver flóð hafi fallið eftir alla þessa ofankomu. Hann segir að tvö snjóflóð hafi fallið á vegi síðdegis í gær.

Það eru app­el­sínu­gul­ar viðvar­an­ir á Aust­ur­landi og Aust­fjörðum vegna norðaust­an­hríðar og mik­ill­ar snjó­komu á Aust­fjörðum.

Á Aust­ur­landi að Glett­ingi gild­ir app­el­sínu­gul viðvör­un til klukk­an 14 í dag og til miðnætt­is á Aust­fjörðum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert