Mikið hefur snjóað á Austfjörðum í gær og nótt, sérstaklega á Seyðisfirði. Síðla nætur dró úr ofankomu en gert er ráð fyrir af eftir hádegi aukist ofankoma aftur og haldi áfram fram yfir miðnætti.
Þetta kemur fram í tilkynningu á bloggsíðu Veðurstofu Íslands um ofanflóð. Þar segir að í gær hafi fallið snjóflóð í Færivallaskriðum og Hvalnesskriðum og í dag hafi komið í ljós þrjú nokkuð stór snjóflóð ofan og innan við Neskaupstað.
Ákveðið hefur verið að rýma fjögur hús í Bakkahverfi á Seyðisfirði norðan Fjarðarár til viðbótar við rýmingu húsa sem rýmd voru í gær.
Þar segir ennfremur að ofan Bakkahverfis sé unnið að byggingu leiðgarðs, sem nefndur hefur verið Bakkagarður, og vantar upp á að efstu 200 metrar garðsins séu kominn í fulla hæð og eru húsin sem ákveðið hefur verið að rýma undir þessum hluta garðsins.
Veðurspá gerir ráð fyrir að þessu veðri sloti nokkru eftir miðnætti eða seint í kvöld og má gera ráð fyrir að dragi úr snjóflóðahættu á Austfjörðum í framhaldi af því.