Skipstjóri undir áhrifum sofnaði við stýrið og sigldi skipinu í strand

Skipið festist og skemmdist talsvert við áreksturinn.
Skipið festist og skemmdist talsvert við áreksturinn. Ljósmynd/Colourbox

Héraðsdómur Vestfjarða hefur dæmt skipstjóra til að greiða 250.000 krónur í sekt fyrir að stjórna skipi undir áhrifum fíkniefna. Þá var maðurinn einnig sviptur skipstjórnarréttindum í fjóra mánuði.

Honum er enn fremur óheimilt að gegna stýrimannsstöðu á sama tímabili.

Lögreglustjórinn á Vestfjörðum ákærði manninn 16. október fyrir að hafa mánudagskvöldið 24. júní 2024, í starfi sínu sem skipstjóri á fiskiskipinu Fíarún SH13, sem er 4,1 brúttótonn og 7,79 metrar að skráðri lengd, stjórnað skipinu á leið til hafnar á Patreksfirði óhæfur til að stjórna því örugglega vegna áhrifa ávana- og fíkniefna.

Fram kemur í ákærunni að í blóðsýni úr skipstjóranum hafi mælst amfetamín, eða 365 ng/ml.

Þá kemur fram að hann hafi sofnað við stjórn skipsins og siglt skipinu á um 12 sjómílna ferð upp í fjöru við svonefnda Björg, skammt innan við þéttbýlið á Patreksfirði, þar sem það festist og skemmdist talsvert. Þurfti að draga það af strandstað til hafnar á Patreksfirði.

Fram kemur í dómi héraðsdóms, sem féll 14. janúar en var birtur í dag, að skipstjórinn hafi játað sök. Tekið er fram að maðurinn hafi ekki áður verið dæmdur til refsingar samkvæmt sakarvottorði.

Honum var enn fremur gert að greiða 273.000 kr. í sakarkostnað.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert