Dregið hefur úr ofankomunni á Austurlandi og Austfjörðum í morgun en snjókomubakki gengur inn á land um þrjúleytið og er útlit fyrir talsverða snjókomu í nokkrar klukkustundir.
Þetta segir Björn Sævar Einarsson, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, í samtali við mbl.is en snjóflóðahætta er enn í gildi á Austfjörðum. Hann segir að það gæti snjóað hressilega í Neskaupstað en það fari eftir því hversu langt snjókomubakkinn gangi inn á land. Hann segir að vind taki að lægja smátt og smátt fyrir austan.
Appelsínugular viðvaranir eru í gildi á Austurlandi og Austfjörðum vegna norðaustanhríðar og mikillar snjókomu á Austfjörðum. Á Austurlandi að Glettingi gildir viðvörunin til klukkan 14 en til miðnættis á Austfjörðum.
Björn Sævar segir að draga muni úr ofankomunni í kvöld og sérstaklega eftir miðnætti. Hann segir að það hafi hlýnað og hitinn sé kominn yfir frostmark á láglendi og í fyrramálið verði 5-10 m/s og stöku él og um kvöldið verði komið fínasta veður.
Veðurfræðingurinn segir að á morgun og framan af miðvikudegi verði hið ágætasta veður á landinu en á miðvikudagskvöld fari að hvessa suðvestalands og vindur gæti farið yfir 20 m/s sekúndu með slydduéljum á Suðurnesjum.