Tólf ára drengur gekk tárvotur af vellinum: „Ógeðsleg orð“

Atvikið átti sér stað á Alimótinu í Kópavogi. Mynd úr …
Atvikið átti sér stað á Alimótinu í Kópavogi. Mynd úr safni. mbl.is/Árni Sæberg

Íslenskur tólf ára drengur varð fyrir kynþáttafordómum á fótboltamóti í gær.

Sandra Jónsdóttir, móðir drengsins, segir atvikið hafa fengið mikið á hann.

Lýsir hún því svo að aðeins nokkrar mínútur hafi verið eftir af leik um þriðja sæti á mótinu, þegar hún sér son sinn ganga sjálfviljugan af velli, með tárin í augunum.

„Þegar ég svo nálgast hann kemst ég að því að hann var ekki miður sín yfir að liðið skyldi ekki landa bikarnum heldur því jafnaldri hans úr liði andstæðingsins kallaði hann ógeðslegum nöfnum og vísaði í litarhaft sonar míns sem er blandaður,“ lýsir Sandra í færslu á Facebook.

Rætt við þjálfarana og liðið

Í samtali við mbl.is segist hún sjálf hafa reiðst mjög, auk föður drengsins og stjúpmóður sem einnig voru á meðal áhorfenda.

Tekið hafi verið á málinu strax í framhaldi:

„Það var talað við þjálfarana, það var talað við strákana, allt liðið í heild sinni. Það var talað við föður drengsins og drengurinn baðst afsökunar og áttaði sig greinilega á hvað hann hafði gert,“ segir Sandra.

„Auðvitað er þetta leiðinlegt.“

„Börnin geta sagt svo mikið í hita leiksins

Sandra segir atvikið hafa komið upp þegar sonur hennar náði að verjast sókn hins drengsins sem hafi í kjölfarið misst stjórn á skapi sínu og kallað son hennar „ógeðslegum orðum“.

„Ég held að íþróttir yfir höfuð geti verið hættulegar fyrir eitthvað svona af því að það er greinilegt að börnin geta sagt svo mikið í hita leiksins,“ segir Sandra.

Hún trúi því að drengurinn hafi ekki meint það sem hann sagði.

„Hann hefði kannski ekki sagt þetta undir venjulegum kringumstæðum, en það þarf svo lítið til að fólk segi bara allt það ljóta sem því dettur í hug. Ég veit að það gerist ekki undir venjulegum kringumstæðum. En það má svo heldur ekki gerast undir svona kringumstæðum.“

Ekki bara barsmíðar sem eru hættulegar

Finnst þér að það mætti efla fræðslu um þetta í yngri flokkum?

„Mér finnst það. Af því svona orð, þau geta sært svo rosalega mikið. Það eru ekki bara einhverjar barsmíðar sem eru hættulegar. Það eru líka orðin.“

Aðspurð segir hún atvikið hafa fengið mikið á son sinn og nefnir jafnframt að hún vilji fylgjast með hvort talað verði við félag drengsins sem lét orðin falla.

„Mig langar auðvitað líka að það komi umræða í félagið hjá mínum strák. Að þetta megi ekki viðgangast undir neinum kringumstæðum.“

Færslu Söndru er deilt hér fyrir neðan með góðfúslegu leyfi:

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert