Bætt hefur verið í framkvæmdir við varnarvirki vegna ofanflóða í bæði Neskaupstað og á Seyðisfirði.
Tómas Jóhannesson, sérfræðingur í ofanflóðahættumati á Veðurstofu Íslands, segir að á báðum stöðum standi nú yfir mjög miklar varnarvirkjaframkvæmdir.
Hluti beggja bæjarfélaga var rýmdur í gær vegna hættu á snjóflóðum.
Í samtali við mbl.is nefnir Tómas að verið sé að reisa tvær keilur í miðjum farvegi Nesgilsins þar sem flóðið féll sem lenti á húsunum í Neskaupstað árið 2023.
„Við eigum von á að í sumar verði talsverðum áfanga náð og keilur verði komnar fyrir næsta vetur sem mikið gagn verði af,“ segir Tómas.
Á Seyðisfirði hillir undir verklok við uppbyggingu varnargarða fyrir Norðurbæinn en þar er verið að byggja þrjá varnargarða og sjö keilur.
Mörgum eru enn í fersku minni aurskriðurnar á Seyðisfirði árið 2020 en Tómas segir að Norðurbænum á Seyðisfirði sé fyrst og fremst ógnað af snjóflóðum.
Þar varð mannskæðasta snjóflóð Íslandssögunnar árið 1885, en 24 fórust þegar snjóflóð féll úr fjallinu Bjólfi.
„Garðarnir eru að rísa á því svæði slysið átti sér stað,“ segir Tómas.
Garðarnir sem rísa eru Bakkagarður, Fjarðargarður og Öldugarður í verkefni sem er mjög langt komið.
„Efsti hlutinn af Bakkagarðinum er eftir en hinir tveir garðarnir eru að segja má tilbúnir nema einhver smá frágangur efst á Fjarðargarðinum,“ segir Tómas og bætir við að keilurnar hafi risið.
Verklok eru fyrirhuguð 2026 á Seyðisfirði og 2029 í Neskaupstað. Í síðarnefnda bænum féll eins og áður sagði flóð árið 2023 og þótti mildi að enginn hefði slasast eða jafnvel látist.
Eftir að stóru skriðurnar féllu á Seyðisfirði 2020 var ráðist í að reisa þar varnargarða. Tómas segir þá garða vera komna í fyrirhugaða hæð sem bráðabirgðavörn og sums staðar séu þeir nokkurn veginn í endanlegri mynd.
„Samhliða þeirri framkvæmd var gerð úttekt á varnarvirkjum sem liggur nú fyrir en eftir er að hanna þær varnir. Það eru skriðuvarnir sem að sumu leyti eru fyrstu varnir sinnar tegundar á landinu og þar á meðal ákveðnar ráðstafanir til að drena vatn úr hlíðinni og lækka vatnsborð, sem tengist því hvenær skriðurnar fara af stað,“ segir Tómas frá.
Hann segir að gera þurfi ýmsar rannsóknir til að fullvíst sé að allt virki eins og til sé ætlast áður en því verkefni lýkur.
„Það eru framkvæmdir sem eru í undirbúningi og munu taka mörg ár.“
Spurður um skilgreiningu hættusvæða eftir að varnir eru komnar upp segir Tómas að þau séu þá endurskilgreind eða færð til eftir því sem talið sé að varnir séu tryggar.
„Engin varnarvirki eru fullkomlega örugg þannig að áfram eru hættusvæði undir þeim. Varnarvirkin draga mjög mikið úr hættunni og þannig verður leyfilegt að reisa ný atvinnu- og íbúðarhús á stórum svæðum undir varnarvirkjunum á svæðum þar sem það var áður bannað.“
Þá segir hann að rýmingaráætlun verði endurskoðuð og öryggisráðstafanir þegar snjóflóðahætta verði sem og hættumatið sjálft sem haft sé til hliðsjónar þegar verið er að skipuleggja nýbyggingar og þróa byggð.
Öryggisviðbúnaður kom vel út þegar flóðin féllu í Neskaupstað 2023 að sögn Tómasar. Reynt hafi á allar þrjár tegundir varna; stoðvirki, keilur og garða.
Sjá mátti hvar snjóflóðin áttu upptök sín í efsta hluta fjallsins og hægt var að rekja hvernig stoðvirkin sem þar voru reist komu í veg fyrir að snjóflóð færu af stað á þeim svæðum.
„Snjóflóðin lentu af miklum krafti á keilum og görðum þannig að flóð sem komu greinilega á miklum hraða og skullu á keilunum eða görðunum hrönnuðust þar upp og köstuðust upp í loftið í stað þess að halda áfram á fullri ferð.“
Virtust þau sýnilega hafa orðið fyrir miklum áhrifum af því að bremsast þarna niður að sögn Tómasar. Snjór hafi hlaðist upp ofan við þessi varnarvirki sem meta mátti rúmmálið á og giska hvað hefði farið langt ef varnarvirkin hefðu ekki komið til.
„Það var bara mjög umtalsvert.“
Segist hann heyra að hugur sé í nýju ríkisstjórninni á að leggja áherslu á þetta málefni og ljúka framkvæmdum sem allra fyrst.
„Þessi hrina er nú skömmu eftir fyrsta viðtal umhverfisráðherrans um snjóflóðavarnir og ofanflóðamál og er hún góð áminning um að halda vel á spöðunum og reyna að koma vörnum upp sem allra fyrst.“