Opinbert fé hefur verið veitt til Flokks fólksins árin 2022-2024 þrátt fyrir að flokkurinn hafi ekki uppfyllt skilyrði laga um skráningu á stjórnmálasamtakaskrá hjá Skattinum. Upphæðirnar hlaupa á hundruðum milljóna króna.
Fjármálaráðherra hefur málið til skoðunar og skrifstofa Alþingis hyggst endurskoða verklag við greiðslur í kjölfar eftirgrennslanar Morgunblaðsins.
Ríkisendurskoðandi segir ekki um einsdæmi að ræða.
Opinber fjárframlög til stjórnmálaflokka hafa sætt aukinni gagnrýni, en þau eru greidd úr ýmsum áttum af hálfu hins opinbera. Hvergi virðist þó hafa verið gætt að því að skýr lagaskilyrði fyrir úthlutun með skráningu stjórnmálasamtaka væru uppfyllt.
Flokkur fólksins er þó ekki eini stjórnmálaflokkurinn sem veitt hefur miklu opinberu fé viðtöku án þess að uppfylla skilyrði laga.
„Vinstrihreyfingin – grænt framboð var lengi vel ekki skráð sem stjórnmálasamtök heldur félagasamtök. Þeirri skráningu var hins vegar breytt í fyrra,“ segir Guðmundur Björgvin Helgason ríkisendurskoðandi í samtali við Morgunblaðið.
Fengu Vinstri-grænir úthlutað án þess að uppfylla skilyrði laganna?
„Já, ég tel svo vera,“ segir Guðmundur og bætir við að Ríkisendurskoðun hafi ítrekað gert athugasemdir við Vinstri-græna vegna þessa.
„Það tók sinn tíma fyrir þá að bregðast við því, því eins og þessi lagagrein er orðuð er í raun ekkert bit í eftirliti af okkar hálfu. Við getum ekki stöðvað neitt eða þvíumlíkt þannig að þetta flýtur bara áfram. Tilfelli eins og þessi sýna þó að það er tímabært að fara í heildarendurskoðun lagarammans.“
Meðan enginn gegni eftirlitshlutverki vegna þessa sé það á ábyrgð þeirra sem borga flokkunum að ganga úr skugga um að skilyrði séu uppfyllt.
Hafið þið gert sambærilegar athugasemdir við Flokk fólksins og þið gerðuð við Vinstri-græna?
„Ég get ekki svarað því hér og nú hvort það hafi komið upp. Þetta er þó ekki einsdæmi og þarna þarf klárlega að gera betur,“ segir Guðmundur.