„Ég held að þetta sé mjög fljótt að hafa margfeldisáhrif. Þetta er ógnvænleg staða sem getur orðið að ógnvænlegri þróun.“
Þetta segir Svala Ísfeld, dósent við lagadeild Háskólans í Reykjavík, í samtali við mbl.is, um þá iðju sem hópur íslenskra ungmenna hefur stundað síðastliðið ár, að nota tálbeitur til að nálgast menn sem hyggjast tæla til sín börn, og ganga svo í skrokk á þeim.
Myndbönd af barsmíðunum hafa gengið manna á milli á samfélagsmiðlum upp á síðkastið. Nútíminn greindi fyrst frá málinu í síðustu viku.
Hópurinn hefur einnig opinberað nöfn, kennitölur og heimilisföng sumra þessara manna og sagt að þeir gætu átt von á heimsókn á næstunni.
„Ef þetta heldur svona áfram verða yfirvöld að velta fyrir sér hvernig þau geti verndað þá sem hafa komist í kast við lögin vegna kynferðisbrota gegn barni. Því það er heldur ekki hægt með nafn- eða myndbirtingum, hvorki stjórnvöld eða fjölmiðlar að koma fólki í hættu af þessu tagi,“ segir Svala.
Hún varði í desember doktorsritgerð sína Vernd barna gegn kynferðisofbeldi; réttarþróun, dómar og samfélagsleg viðhorf, þar sem hún rýnir í dóma Hæstaréttar frá stofnun dómstólsins árið 1920 til ársins 2015.
Í ritgerðinni kemur fram, líkt og mbl.is hefur áður greint frá, að hatursfull umræða og fordæming þeirra sem hafi brotið kynferðislega gegn börnum sé skaðleg og geti meðal annars leitt til þess að þolendur segi síður frá og jafnframt komið í veg fyrir að þeir sem sem finni fyrir annarlegum hvötum í garð barna leiti sér aðstoðar.
Svala segir að það sem ungmennin eru að gera, sé dæmi um afleiðingar hatursfullrar umræðu og fordæmingar.
„Ég held að í þeim nútíma sem við lifum í, samfélagsmiðlum og hvernig hægt er að dreifa upplýsingum, og reiði og hatri, hratt og örugglega í umhverfi sínu, þá er þetta ein af þeim afleiðingum sem geta orðið.“
Erfitt sé að sporna við slíku, en það megi aldrei tala fyrir ofbeldi. Á Íslandi sé refsi- og réttarvörslukerfi sem taki á málum af þessu tagi.
„Vafalaust á þetta að hafa fælingaráhrif. Við getum ímyndað okkur að markmið sé að fæla fólk frá því að fremja brot af þessu tagi, en vilji maður koma upp um þá sem hafa í hyggju eða hefur grun um það, þá ber manni að leita til lögreglunnar, því það er hún sem upplýsir lögbrot,“ segir Svala.
„Svona vinnum við ekki í siðuðum samfélögum,“ bætir hún við.
Í ritgerð sinni rifjar Svala upp forsíðu Mannlífs frá árinu 2007, sem var helguð þeim sem voru kallaðir fimm hættulegustu barnaníðingarnir. Þar hafi verið stigið ákveðið skref í að afhjúpa menn sem hafa brotið gegn börnum, fyrir öllu samfélaginu. Myndir af þeim birtar og meðal annars sagt hvar þeir áttu heima.
„Þá var eiginlega brotið blað í að afhjúpa og gera þessa menn sýnilega. Og koma þeim þar með í þá stöðu að það væri hægt að þekkja þá og komast að þeim. Þar var líka fest á blað orðið níðingarnir sem hefur fest sig í sessi og er notað um þá sem fremja kynferðisbrot gegn barni, alveg óháð alvarleika brotsins.“
Í umfjöllun Mannlífs var staðhæft að þeir sem væru haldnir barnagirnd væru hataðir í nútímasamfélagi og að þjóðfélagið fyrirliti þá.
„Mikilvægt er að hafa í hug að fordæming og útskúfun af þessu tagi er ekki afleiðingalaus,“ segir í ritgerðinni.
Svala segir barnaníðinga vissulega hinn fordæmda gerendahóp sem sé útskúfaður bæði innan og utan fangelsismúranna.
„Hatursfull umræða gerir ekkert gagn, en hún gerir ógagn. Hún hindrar gerendur í að snúa til eðlilegs lífs eftir að hafa tekið út refsingu, hindrar þá sem finna fyrir þessum hvötum að leita sér hjálpar og hindrar jafnvel þolendur í að segja frá. Hún stuðlar líka að því að fólk taki lögin í sínar hendur og það er það sem við erum að sjá raungerast með hræðilegum afleiðingum.“
Markmið okkar sem ábyrgra samfélagsþegna eigi að vera að fækka kynferðisbrotum gegn börnum. Það vilji allir. Þess vegna sé mikilvægt að þróa áfram meðferðir fyrir gerendur og styðja þá sem vilja leita sér hjálpar. Það geti fækkað brotum eða komið í veg fyrir þau.
„Við þurfum að sýna þolendum skilning og þetta er liður í því, að fordæma ekki eða dreifa hatrinu með þessum hætti. Því oft tengist þetta fólk kærleiksböndum.
Við megum heldur ekki gleyma því að sumum þessara gerenda þurfum við að sýna ákveðinn skilning, því sumir þeirra eru enn þá börn og eiga lífið fram undan,“ segir Svala.
Hún vísar í viðtal við Önnu Newton, sálfræðing og sérfræðing í barnagirnd, þar sem fram kemur að það séu helmingi minni líkur á að þeir sem dæmdir hafa verið fyrir kynferðisbrot gegn barni fremji sambærileg brot að afplánun lokinni fái þeir viðeigandi meðferð meðan á afplánun stendur og eftir hana.
„Þetta eru staðreyndir. Þetta er búið að sýna og sanna með rannsóknum og þetta ætti að vera það sem við viljum leggja ríka áherslu á.“
Líkt og kom fram í umfjöllun mbl.is um helgina hefur á síðustu árum verið komið á fót úrræðum sem ætluð eru gerendum kynferðisbrota í þeim tilgangi að draga úr líkum á að þeir brjóti af sér aftur.
Annars vegar er að um að ræða úrræði fyrir fullorðna sem nefnist Taktu skrefið og var komið á fót árið 2022 og hins vegar sálfræðiþjónusta fyrir börn vegna óviðeigandi kynhegðunar (SÓK) sem komið var á fót árið 2009.
Alls 123 einstaklingar höfðu þegið meðferð hjá Taktu skrefið frá árinu 2022 og fram í október 2024. Þá hafa dómstólar nýtt úrræðið og gert brotamönnum að gangast undir meðferð á skilorðstíma.
Þá hafa alls 267 börn fengið þjónustu sálfræðinga hjá SÓK-teyminu á síðustu 15 árum. Langflest börnin eru á aldrinum 12 til 18 ára, en börn niður í fimm ára hafa fengið þjónustu.
Svala bendir á að um sé að ræða töluverðan fjölda fólks sem verið sé að aðstoða og vilji leita sér aðstoðar. Það sé því mikilvægt að efla úrræðin enn frekar í stað þess að ala á hatri.