Aldrei færri notað ljósabekki

Vinsældir ljósabekkja fara dvínandi
Vinsældir ljósabekkja fara dvínandi

Hlutfall fullorðinna sem notað hafa ljósabekki síðustu tólf mánuði er nú fimm prósent og er einu prósentustigi lægra en í síðustu könnun sem gerð var 2022. Þetta sýna niðurstöður könnunar Gallup sem gerð var fyrir samstarfshóp Geislavarna ríkisins, Embættis landlæknis og Krabbameinsfélags höfuðborgarsvæðisins en þetta kemur fram á vef Geislavarna.

Ljósabekkjum á Íslandi fer einnig fækkandi en samkvæmt talningu Geislavarna ríkisins árið 2023 eru þeir 86 talsins samanborið við 97 í talningu sem fór fram árið 2020. Notkun ljósabekka eykur líkurnar á húðkrabbameini og ráða Geislavarnir ríkisins fólki frá notkun þeirra.

Notendur ljósabekkja fara oftar í ljós

Hlutfall þeirra sem farið hafa í ljós hefur eins og áður segir lækkað á milli kannana en niðurstöðurnar sýna þó að þeir sem á annað borð hafi farið í ljós fari oftar nú en árið 2022. Meðalfjöldi skipta sem svarendur hafa farið í ljós á síðastliðnum tólf mánuðum fer úr 0,2 skiptum og upp í 0,6 skipti, 0,7 prósent svarenda fara vikulega í ljós samanborið við 0 prósent árið 2022. 

Frá upphafi mælinga hafa aldrei færri notað ljósabekki, árið 2004 var hlutfallið til að mynda í kringum þrjátíu prósent. Sömu sögu er að segja af fjölda ljósabekkja en þeir voru 277 talsins árið 2005.

Í skýrslu Alþjóða heilbrigðismálastofnunarinnar (WHO) frá árinu 2017 kemur fram að notkun ljósabekkja hafi valdið aukinni tíðni húðkrabbameina. Notkun ljósabekkja er talin valda meira en tíu þúsund tilfellum af sortuæxlum árlega og meira en 450 þúsund tilfellum af öðrum húðkrabbameinum í Bandaríkjunum, Evrópu og Ástralíu samanlagt. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert