Björn segir sig úr Flokki fólksins

Björn Þorláksson hefur sagt sig úr Flokki Fólksins.
Björn Þorláksson hefur sagt sig úr Flokki Fólksins. mbl.is/Sigurður Bogi

Fjölmiðlamaðurinn Björn Þorláksson hefur sagt sig úr Flokki fólksins, en hann var í þriðja sæti á lista flokksins í Reykjavíkurkjördæmi norður fyrir síðustu þingkosningar í nóvember og er því annar varaþingmaður flokksins í kjördæminu. 

Þessu greinir hann frá í nýlegri facebook færslu þar sem hann segir helstu ástríðu sína alltaf hafa verið „að þjóna almenningi með beittri blaðamennsku.“ 

Þá segist hann hafa ákveðið að velja á milli stjórnmála og blaðamennsku og blaðamennska hafi haft vinninginn. Hann hafi tilkynnt Ingu Sæland, formanni Flokks fólksins, um ákvörðun sína með bréfi í gær og sagt sig úr flokknum í dag. Hann muni „framvegis standa utan allra flokka. Eins og blaðamenn eiga að gera.“

„Fjórða valdið er almenningi gagnlegast þegar það aðgreinist að fullu frá þremur stoðum ríkisvaldsins og öllu pólitísku valdi.“

Björn er í dag sjónvarpsstjóri á Samstöðinni og hefur áður starfað á Hringbraut, sem ritstjóri Akureyri vikublaðs og sem fréttamaður á Rúv og Stöð 2.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert