Ekki tekist að vernda börn þrátt fyrir vitneskju

Svala segir gjarnan dregna upp mynd af hættulegum og ókunnugum …
Svala segir gjarnan dregna upp mynd af hættulegum og ókunnugum geranda, en rannsóknir sýni að raunveruleikinn sé annar. Samsett mynd/Aðsend/Colourbox

Allt upp í áttatíu prósent kynferðisbrota gegn börnum eru framin af einhverjum sem tengist barninu fjölskyldu- eða vinaböndum eða á annan hátt.

Þegar brotamaður er tengdur barninu fjölskylduböndum hefur oft komið fram grunur eða vitneskja í nærumhverfinu um afbrigðilega hegðun eða óviðeigandi kynferðislegar langanir, annað hvort innan fjölskyldunnar eða hjá barnaverndaryfirvöldum, en það hefur ekki dugað til að vernda börn fyrir brotunum. 

Þetta er meðal þess sem kemur fram í doktorsritgerð Svölu Ísfeld Ólafsdóttur, dósents við lagadeild Háskólans í Reykjavík; Vernd gegn kyn­ferðisof­beldi; rétt­arþróun, dóm­ar og sam­­lags­leg viðhorf, sem hún varði í desember. Í ritgerðinni rýn­ir hún í dóma Hæsta­rétt­ar frá stofn­un dóm­stóls­ins árið 1920 til árs­ins 2015, og skoðar þá þætti sem veita upplýsingar um eðli, einkenni og sérkenni kynferðisbrota gegn börnum. Nær rannsóknin til 306 þolenda á þessum tímabili. 

Yngstu börnin 2 ára 

Í þeim dómum sem Svala rannsakaði voru 72 prósent barnanna í fjölskyldutengslum eða öðrum tengslum við geranda. Niðjar í hópi þolenda voru 27 talsins, 25 stúlkur og 2 drengir. Í tilviki drengjanna, sem voru systkinabörn, braut afi þeirra gegn þeim. Í tilviki stúlknanna braut faðir gegn 19 þeirra og afi gegn sex. Alls er um að ræða 23 gerendur sem brjóta gegn niðjum sínum og eru feður um það bil þrefalt fleiri en afar. 

Af þeim 306 þolendum sem rannsóknin náði til voru 270 undir 15 ára, eða því sem telst kynferðislegur lágmarksaldur. Yngstu börnin voru 2 ára. 

Meðalaldur stúlknanna þegar brotin áttu sér stað var rúm 10 ár en meðalaldur drengjanna var 12 ár. Tekið var mið af fyrsta broti ef brotin voru ítrekuð eða náðu yfir langt tímabil. Meirihluti barnanna var á aldursbilinu 8 til 14 ára eða 73 prósent stúlkna og 63 prósent drengja. 

Gjarnan dregin upp mynd af ókunnugum geranda 

Svala segir að í samfélagsumræðu um kynferðisofbeldi gegn börnum sé gjarnan dregin upp mynd af hinum hættulega og ókunnuga geranda. Um sé að ræða utanaðkomandi hættu og foreldrar brýni fyrir börnum sínum að gefa sig ekki á tal við ókunnuga eða fara upp í bíl hjá þeim.

Rannsóknir hafi aftur á móti sýnt að stærstur hluti kynferðisbrota gegn konum sé framin af körlum sem þær þekkja og að allt upp í 80 prósent kynferðisbrota gegn börnum séu framin af einhverjum sem tengist barninu fjölskyldu- eða vinaböndum, eða á annan hátt. Niðurstöður dómarannsóknar hennar styðji þetta háa hlutfall en aðeins fjórðungur þolenda í þeim dómum sem hún rannsakaði hafði engin tengsl við geranda. 

Það sem Svala hafði á hinn bóginn ekki sérstaklega leitt hugann að áður en hún hóf rannsóknina var hve oft það var grunur eða vitneskja í nærumhverfi barns sem hafði verið misnotað af föður eða afa, um afbrigðilegar hvatir eða óviðeigandi kynferðislegar langanir eða kynhegðun þessara manna, annað hvort innan fjölskyldunnar eða hjá barnaverndaryfirvöldum. Það dugði samt ekki til að vernda börnin fyrir brotunum. Í 57 prósent dómanna mátti finna upplýsingar eða vísbendingar um slíkan grun eða vitneskju. 

„Þessi brot eru sveipuð þagnarhjúpi“

„Þetta er það sem dómarnir sýna, auðvitað er brotið gegn fleiri börnum en þeim sem koma fyrir í dómum hæstaréttar. Ekki öll mál eru kærð. Rannsóknir hafa sýnt að kynferðisbrot eru þau brot sem eru sjaldnast kærð. Þessi brot eru sveipuð þagnarhjúpi. Auk þess sem vantraust á réttarvörslukerfinu er áberandi þegar kemur að kynferðisbrotum,“ segir Svala 

„Fólki finnst erfitt að stíga fram og kæra brot af þessu tagi. Þessi brot varða kynhelgi og sálarlíf fólks og þar af leiðandi er erfitt fyrir brotaþola að hleypa hverjum sem er að þeirri líðan og hugsunum. Þú þarft virkilega að treysta því að vel sé með þetta farið og að þeir sem sinna þessum málum nálgist brotaþola af nærgætni og tillitssemi. Það þyrfti að innleiða áfallamiðaða nálgun í kerfið eins og það leggur sig.“ 

Netið auðveldar aðgang og fjölgar aðferðum 

Rannsókn Svölu nær til hæstaréttardóma fram á mitt ár 2015, en töluverðar breytingar hafa orðið á brotum gegn börnum í seinni tíð með tilkomu netsins og samfélagsmiðla. Netið hefur í raun auðveldað ókunnugum gerendum aðgang að börnum. Þannig hefur aðferðum við að brjóta kynferðislega gegn börnum fjölgað. 

Það er fyrst árið 2008 sem netsins er getið í dómum Hæstaréttar sem brotavettvangs. Þar er talað um vefmyndavél og tölvusamskipti, sem fara fram í gegnum Skype, Facebook, MSN og Tinychat.com.  

„Hinir ókunnugu gerendur koma án efa miklu sterkar inn í sambandi við brot á netinu, sem þessir dómar fjalla ekki mikið um því það er ekki fyrr en hin allra síðustu ár sem þessi vettvangur á netinu tröllríður öllum veruleika okkar,“ segir Svala. 

„Netið er orðið nýr brotavettvangur þar sem þú getur bæði komist í kynni við börn til þess að hitta þau og eins geturðu brotið gegn börnum án þess að hitta þau. Þetta er ný tegund af hættu og ný tegund af veruleika sem okkur gengur illa að koma böndum yfir.“ 

Hún bendir á að almennt geti foreldrar fylgst með börnum sínum, hverja þau umgangist og hvar þau séu frá degi til dags. Mun erfiðara sé hins vegar að fylgjast með því hvar þau séu á netinu. Sérstaklega eftir því sem þau eldist. 

„Það hafa orðið ákveðin vatnaskil með samfélagsmiðlum og netinu. Það er nýr viðbættur heimur í möguleikanum á að beita börn kynferðisofbeldi eða misbjóða þeim með kynferðislegum og ósiðsamlegum hætti.“ 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert